Tuesday, August 23, 2005

Jibbí, ég er loksins nettengd

Jæja, það ætlaði aldeilis að taka tímana tvo að fá internettenginguna til þess að virka í herberginu mínu. En í dag small hún loksins í lag svo að nú kemur öll ferðasagan fyrstu 3 dagana eins og hún leggur sig.

Dagur 1: Flugið. Allar vélarnar við flugvélainnganginn voru bilaðar þegar ég fór um borð í flugvélina á Keflavíkurflugvelli svo að starfsliðið var hlaupandi um allan flugvöll að rífa af hjá okkur. Ringulreiðin var allnokkur, svo að ég þorði ekki öðru en að spyrja sessunaut minn í flugvélinni hvort þessi flugvél væri ekki örugglega á leiðinni til San Fransisco??? Annars var þetta afar þögull Dani sem sagði næstum því ekki neitt alla leiðina. Dundaði mér við að fylla út eyðublöð á leiðinni, þetta fyrir tollinn var virkilega fyndið, sérstaklega liður 11 c; Ertu með einhverja snigla með þér?

Lenti klukkan 19 að staðartíma og náði taxa eftir nokkra bið. Bílstjórinn var indverskur (held ég) og rataði ekki um Berkeley. Ég sat í aftursætinu með kort og reyndi að leiðbeina manngreyinu og komst loksins á leiðareinda um 19:30.

Herbergið mitt á 8 hæð líkist fangaklefa. Þar inni er einn beddi, skápur, kommóða, skrifborð og hilla, allt húsgögn sem mega muna fífil sinn fegri. Það sem einkum gefur þó herberginu yfirbragð fangaklefa er svart net sem liggur yfir glugganum og ekki er hægt að fjarlægja. Útsýni mitt takmarkast við sturtuklefana hinum megin í byggingunni. Klósett og sturtur eru sér og ég þarf að ganga með lykil á mér til að fara á klóið (venst nokkuð fljótt). En allt er þetta nú næstum því hreint svo ég er bara nokkuð sátt.

Ca 30 mínútum eftir að ég kom hitti ég strák frá Egyptalandi upp á ganginum á hæðinni minni og rölti með honum á bar hér nálægt þar sem var að finna Breta, tvo Íra og einn Frakka, allt fólk sem býr á I-house. Hitti einn heimilislausan fyrir utan, sá var með trambólín undir hendinni og vildi endilega fá að segja mér sögu sína eftir að hafa sníkt af mér sigarettu (okei, alveg að hætta). Stutta útgáfan af sögu hans er á þessa leið: Ég er frá DC, en elti einhverja stelpu hingað. Svo dumpaði hún mér og ég varð hér eftir. Ég nenni ómögulega að standa í þessu peningarugli, það er bara tóm leiðindi. Þessvegna bý ég á götunni og er bara nokkuð ánægður með það.

Dagur 2: Vaknaði eldhress klukkan 7 að staðartíma og reyndi að læra aðeins á umhverfið og versla inn. Dagurinn leið stórtíðindalaus, ég fékk að kynnast matinum á hinu nýja heimili mínu sem almennt þykir ekki mjög góður. Tókst þó að finna einhvað ætilegt fyrir rest. Veit samt ekki alveg hvað það var......

Dagur 3: Scott (GB) leigði bílaleigubíl og ég, John (ÍRL), Caroline (ÍRL) og Emanuelle (ÍT) skruppum til Napa að skoða vínekrur. Sat við hliðina á Emanuelle á leiðinni, þar sem hann er ítalskur er enskan hans svolítið óskýr. Hann byrjaði ferðinna á því að segja: I'm very angry. Mér dauðbrá, leist ekkert á að hafa reiðan ítala við hliðina á mér alla leiðina til Napa. En svo sá ég að hann strauk sér um magann og áttaði mig á því að hann meinti náttúrulega Hungry........... Ferðin var öll hin skemmtilegasta, við smökkuðum fullt af vínum og enduðum svo út að borða í San Fransisco.

4 Comments:

At 12:14 PM, Blogger Syneta said...

Hljómar vel:) gaman að sjá að þú er farin að blogga og feitt sem ég ætla að hanga hér eftir nýjum fréttum:)

 
At 1:23 PM, Blogger theddag said...

Var einmitt að hugsa um þig í dag. Gott að heyra að þetta hefur allt lukkast og bíð nú spennt eftir nýjum fréttum :)

 
At 1:52 AM, Blogger SewPolkaDot said...

Frábært að þetta byrjar svona vel :) Ég hlakka til að heyra meira frá þér.

 
At 10:29 AM, Anonymous Anonymous said...

Vá,,ein bara farin að kynnast fólki, ég hefði setið heima og borað í nefið í heila viku áður en ég hefði drattast af stað til að kynnast fólki.Júlla þú ert æði!!!

 

Post a Comment

<< Home