Friday, September 02, 2005

Heimaland skrifræðisins

Jæja, eftir ca 2 vikna baráttu og fjölda ósigra við að koma á varanlegri nettengingu í herberginu mínu hér á I-house er ég loksins komin með varanlega nettengingu. Það gekk þó ekki þrautalaust fyrir sig, þar sem ég þurfti að hlaupa um í ca 1 viku stofnanna á milli til þess að fá cal id og kóða til að komast inn á þráðlausa campus netið. Fyrsta vikan mín hér fór næstum því öll í að reyna að finna út úr því hvar ég ætti að gefa mig fram og við hverja ætti að tala í sambandi við veru mína í háskólanum. Skrifræðið í þessari borg er engu líkt, og hlutir sem venjulega taka ca 10 mínútur á Klakanum taka sko 10 daga hérna.

Ég keypti sjúkratryggingu í dag, eða réttara sagt byrjaði ég að reyna að kaupa hana fyrir nokkrum dögum og fékk hana síðan í dag. Og borgaði heila 1170 dollara fyrir vikið þar sem ég er víst svo gömul....

Fyrir utan baráttuna við skrifræðisvindmyllurnar hér hefur dvölin verið líkari sumarfríi en skóla, þar sem kennsla hófst ekki fyrr en í þessari viku. Hef notað tíman til að kanna nágrennið og kynnast ca 600 sambýlingum mínum, það er að segja á þeim tímum sem skrifræðisbáknið hefur verið lokað. Barferðir hafa ekki gengið alveg þrautalaust fyrir sig í þessu landi formsatriðanna, og ég hef bæði upplifað það komast ekki inn á bar þar sem ég var ekki með skilríki á mér og þurft að láta 25 ára strák kaupa fyrir mig bjór þar sem ég fékk ekki afgreiðslu....mjög skrítin upplifun, þar sem ég hef nú keypt bjórinn minn sjálf hér heima í 13 ár. En ég verð greinilega að fara að útvega mér einhver skilríki með fæðingardegi önnur en vegabréfið, því það er náttúrulega stórvarasamt að fara með vegabréfið á pöbbarölt.

Það er sífellt verið að mata mann á einhverjum alþjóðlegum menningarviðburðum hér á International house. Á mánudaginn var boðið upp á Salsakennslu og ég ákvað að skella mér í slaginn. Sennilega hef ég ekki réttu genin í þetta, því það var engu likara en verið væri að kenna ísbirni að dansa....... En ég skemmti mér vel, þarna voru ca 100 manns ca 40 konur og 60 karlmenn sem er eitthvað sem aldrei gæti átt sér stað á Íslandi.

Fyrstu tímarnir mínir voru í þessari viku, og mér lýst bara nokkuð vel á áfangana mína. Einn á þó eftir að reyna virkilega á enskukunnáttu mína, þar sem ég skildi ekki eitt einasta orð sem kennarinn sagði ca 1 klukkutíman af kennslustundinni.......Hann er víst einstaklega post modernískur....... En seinasta klukkutímann fór maðurinn að tala ensku svo kannski verður þetta allt í lagi.

Mannlífið hér er ansi fjölskrúðugt og ég er að spá í að gera það að hefð að segja eina sögu af hinum kostulegu karaterum þessarar borgar í hvert sinn sem ég blogga. Ég fór til El Cerrito í dag að kaupa nokkrar nauðsynjar og hitti afar athyglisverðan ungan mann fyrir utan stórmarkaðinn sem ég fór í. Sá var college nemandi og var að safna peningum frá almenningi fyrir stærðfræðibókinni sinni. Pilturinn veifaði fullt af pappírum til að sanna mál sitt og bað svo kurteislega um fjárframlag. Ég gaf pilti nokkra dollara, þar sem ég gat ekki annað en dáðst að sjálfsbjargarviðleitninni....Kannski ættu íslenskir námsmenn að reyna þessa aðferð til að drýgja námsláninn....

2 Comments:

At 12:34 PM, Blogger theddag said...

Allt hægt í Ameríku :)

 
At 10:53 AM, Blogger SewPolkaDot said...

Gaman að heyra frá þér aftur! :D
Ég vona að þetta skrifræðisvesen sé nú að verða búið og þú getir einbeitt þér að náminu og félagslífinu. Er ekki eitthvað um sæta gæja þarna, hvernig er það ;)

 

Post a Comment

<< Home