Alltaf gaman í skólanum
Jæja, núna er lífið loksins komið í fastar skorður og allt orðið eins og það á að vera. Eða það vona ég að minsta kosti. Mér tókst að verða mér út um bókasafnskort í lok síðustu viku og get því loksins farið að lesa allar hinar fágætu bækur sem leslisti vetrarins hefur á að skipa. Aðeins eitt vandamál tengt skriffinnsku er þó eftir óleyst; þar sem ég er visiting student er ég ekki formlega skráð í áfangana og fæ þá því ekki upp í bspacenetinu, sem hefur það í för með sér að ég fæ engar upplýsingar um það hvað er að gerast í viðkomandi áfanga. En ég ætla bara að bretta upp ermarnar og fá þessu einhvernvegin breytt, ef ég er heppin tekur það bara ca 2 vikur....Námið gengur bara nokkuð vel um þessar mundir þrátt fyrir að ég skylji ennþá mest lítið í folklore 250a. En ég skil þó a.m.k. bækurnar í áfanganum þó að það sem kennarinn segi fari svolítið fyrir ofan garð og neðan..... En annars eiga Bandarísku nemendurnir einnig í basli með að skilja kennarann svo kannski er ég ekki svo illa stödd. Ég er einnig í lesáfanga sem ég er ekki alveg ennþá búin að fá á hreint hvernig gengur fyrir sig, en ég hef hugsað mér að tengja hann rannsóknasögu þjóðfræði og er búin að fá grænt ljós frá John Lindow sem ætlar að lesa hann með mér. Að Alan Dundes gengnum er hann sennilega eini vænlegi leiðbeinandinn fyrir þetta viðfangsefni. Problems in folklore er síðan 3. áfanginn sem ég tek þessa önn, hann er kenndur af Tim Tangerlini sem ég er blessunarlega ekki í neinum vandræðum með að skilja, sama hversu hratt hann talar. Annars er ég byrjuð að vinna að fyrirlestri í áfanganum hjá honum, þar sem ég er eina manneskjan sem get lesið norðurlandamálin í þessum áfanga fékk ég úthlutað kynningu á efni bókar á norsku. Það verður annars athyglisvert að sjá hvernig bókin þolir að verða þýdd úr norsku yfir á íslensku og þaðan yfir á ensku.....
Félagslífið er nokkuð skrautlegt eins og gefur að skylja þegar maður býr í húsi sem hýsir 600 manns. Þetta er svolítið eins og að vera í heimavistaskóla 15 árum of seint og ég hætti aldrei að undra mig á drykkjusiðunum í þessari byggingu. Þessa stundina er ég á kaffihúsinu sem tilheyrir byggingunni og umkring ca 60 misdrukknum nemendum frá ca 20 mismunandi löndum. Það skrítna við drykkjumunstrið hérna er þó það að fólk virðist einkum drekka á miðvikudags og fimmtudagskvöldum en er síðan bara nokkuð spakt um helgar.
Síðasta helgi var þó undantekning en á mánudaginn síðasta var frídagur hér. Þetta hafði það í för með sér að á sunnudagskvöldið fór allur mannskapurinn á mígandi fyllerí sem kallað var Pilsapartý. Þetta partý fól það í sér að allir fóru í pils (karlmenn og konur) og reyndu að troða sér inn í samkomusal I-hússins, sem var því miður allt of lítill fyrir tiltækið. Ég ákvað að skella mér í slaginn þar sem ekki var svefnvænlegt hvort sem er fyrir hávaða og skemmti mér bara nokkuð vel. Endaði í partý á fjórðu hæðinni hjá hinum ellismellinum í húsinu, Þjóðverja að nafni Torben, sem við þetta tækifæri skartaði gullfallegu en allt of stuttu köflóttu skólastelpupilsi....
Síðasta sunnudag fór ég í skoðunarferð til San Fransisco með danskri stelpu að nafni Julie. Við ákváðum að fara um borgina fótgangandi til þess að missa nú ekki af neinu merkilegu. Við höfðum alveg gleymt því að göturnar í San Fransisco eru víst frægar fyrir að vera með þeim bröttustu í heiminum..... Gengum í gegnum Chinatown, sem er alveg stórmerkilegt hverfi, og keyptum spákökur fyrir fullorðna beint úr verksmiðju sem við fundum í einu húsasundinu. Ég lenti í mestu vandræðum í blessaðri verksmiðjunni, ég hlýt að hafa verið besti kúnni dagsins þar sem gömul kínversk kona afhenti mér ca 50 kökur í bónus til smökkunar......Þurfi að beita miklum klókindum til þess að lauma þeim í ruslið. En spádómana í kökunum hef ég ekki ennþá skilið og heldur ekki Julie, þeir eru sennilega þýðingar á einhverri speki úr kínversku sem ekki skilar sér inn í okkar skandinavíska hugsunarhátt. Annars gengum við síðan til Fishermans Wharf sem var mjög líflegt sökum þess að það var jú nokkurskonar verslunarmannahelgi í gangi. Tókum kapalvagn frá ca aldamótunum 1900 til baka, bílstjórinn var mjög skrautlegur, gekk út á einni stöðinni með þessum orðum: My good damm shift is over and some other mother fucker punk is going to drive you home. Mér líkaði vel við þennan bílstjóra. Ferðin til baka með lestarvagninum var annars svo hæg að við hefðum sennilega verið fljótari fótgangandi og vangninn drap á sér ca 4 sinnum á leiðina til baka til Bart stöðvarinnar.
Ég má til með að ljúka þessari umræðu með sögu af heimilislausa manni vikunnar. Þann hitti ég hérna fyrir utan kaffihúsið síðustu helgi. Þegar hann komst að því að ég væri frá Íslandi fór hann bókstaflega allur á loft, þar sem Ísland var bókstaflega draumaland hans. Það kom á daginn að hann vissi bókstaflega allt um landið, langaði til þess að flytjast þangað, og var bókstaflega sérfræðingur í norrænni goðafræði. Já, ég meina það, maðurinn gæti bókstaflega kennt fagið upp í Háskóla hér heima. Þessi maður vakti upp nokkrar grunsemdir um það að ákveðin þjóðsaga sem ég heyrði um heimlisleysingjana hér gæti verið sönn, en hún er sú að þeir séu margir hverjir fyrrverandi nemendur við Berkeley háskóla..... En ég sel þetta nú ekki dýrara en ég keypti það.
4 Comments:
´´o ´´o þu verður að fara að passa þig þvi ekki viljum við að þu verðir heimilislaus hvað þa i henni storu ameriku
Greinilega ekki björt framtíð fyrir Berkley nemendur ;)
Hæ Júlla, ég rambaði á síðuna þína í gegnum þvílíkar krókaleiðir hehehe man ekki einu sinni hvernig. Gaman að geta fylgst aðeins með þér.... veit ekki hvort þú mannst eitthvað eftir mér frá Klaustri....en ég bara mátti til með að kvitta fyrir mig...
Kveðja Helga Berglind
www.home1.stofanet.dk/mosevangen68
Sæl, dúllan mín..gaman að geta fylgst með þér í gegnum bloggið og ég fíla bloggið þitt og skrifin í tætlur...haltu áfram á þessari braut og gaman að vita af því að það er ekki leiðinlegt hjá þér
kveðja
Post a Comment
<< Home