Friday, September 16, 2005

Tungumálaörðuleikar, dansandi Aztekar og fleira

Jæja, þá er nú fjórða vikan mín hér í Berkeley að enda og komin tími til að skrifa skýrslu síðustu daga. Námið gengur bara nokkuð vel enn sem komið er þrátt fyrir að ég skilji ekki ennþá neitt sem kennarinn segir í folklore 250. Annars er þessi áfangi allur um það hvernig tungumál hinnar ráðandi vísindahugsunar var fundið upp af evrópskri karlaelítu 18. og 19. aldar. Þessi staðlar evrópuelítunar varð síðan ráðandi sem viðmið um allan heim með neikvæðum afleiðingum fyrir konur, ómenntaða, fátæka og fleiri. Ég er að lesa bók eftir kennara áfangans þessa dagana og komst að því að maðurinn hreinlega talar alveg eins og hann skrifar. Hér kemur týpísk setning úr bókinni, íslensk þýðing óskast:

When applied to epistemological constructions or to a cultural forms more generally, of course, hybridity is a metaphor, which carries with it from taxonomic biology the notion that the hybrid ,,offspring,, is a heterogeneous mixture of relevant constituent elements contributed by the homogeneous (pure) ,,parent,, form.

Jabb, svo mörg voru þau orð. Ég get ekki að því gert, en mér finnst svolítið eins og ég sé að lesa texta dauðu, hvítu karlmannaelítunnar gegnum augu nýrrar, póst módernískrar elítu..... þ.e. á tungumáli sem er alveg jafnóskiljanlegt þorra fólks og textar hinna hljóta að hafa verið á sínum tíma. Svo að þessi áfangi er í dálítilli mótsögn við sjálfan sig og tilgang sinn þótt hann sé mjög áhugaverður að mörgu leiti.

Maturinn hérna á I-house er gjörsamlega að gera útaf við mig. Já, þið sem spáðuð því að ég kæmi feit til baka getið sko bara étið það ofan í ykkur strax, ég hef hreinlega hríðhorast síðasta mánuðinn. Maturinn sem ég illu heilli neyddist til að kaupa með húsnæðinu er ekki aðeins vondur heldur líka afar sundurlaus. Aldrei hægt að fá alveg heilstæða máltíð. Ef það er steik og kartöflur er venjulega engin sósa. Næsta dag er síðan brún sósa en ekkert til að nota hana á...Ég hef kenningu um það af hverju þetta stafar: Kokkarnir draga miða upp úr hatti sem ræður því hvað verður á hlaðborðinu þann daginn, og því lítur týpisk máltíð svona út; fiskur, pasta, brún sósa, kartöflumús og skelfiskbollur...... ég meina, hvernig raðar maður þessu saman...? Annars er I-house fullt af einhverjum alþjóðlegum uppákomum, í kvöld borðaði ég tildæmis vondan mat við dúndrandi trumbuslátt meðan ég horfði á Aztekahóp dansa kringum logandi eld......Tilkomumikil sjón.

Ég frétti af öðrum Íslendingi á þessum slóðum um daginn. Sú heitir víst Rún og bjó hér í fyrra. Bilal, pakistanskur kunningi minn hér bjó í næsta herbergi við hana í fyrra og er enn í sambandi við hana. Hann er að vinna í því að leiða okkur saman, ég vona að það takist hjá honum því það væri nú gaman að hitta einhvern Íslending fljótlega....Annars hef ég hitt hrúgu af íslenskumælandi fólki hér, fór í partý hjá Scandinavíudeildinni síðasta laugadag og komst að því mér til mikillar undrunar að annarhver starfsmaður deildarinnar talar íslensku. Ég gekk við þetta tækifæri í Sagaklúbb deildarinnar, en meðlimir klúbbsins ku hittast einu sinni í mánuði til að lesa og þýða íslensk fornrit yfir á ensku. Og svo er náttúrulega drukkið þessi lifandis ósköp...En þetta er víst mikil skemmtun þar sem þýðingarnar eru víst stundum dálítið bókstaflegar, einn prófersorinn þýðir víst forskeytið all- sem totally. Menn Þogríms voru allbúnir til bardaga er því í enskri þýðingu; Þorgríms men were totally ready for a combat......

Eins og alltaf ætla ég að ljúka spjallinu á sögu af heimilislausa fólkinu hér í Berkeley. Í þessu tilfelli er ég þó ekki alveg viss um að maðurinn hafi verið heimilislaus, en hann leit þó að minnsta kosti út fyrir að vera það... Ég hitti þennan mann á gangi á Telegraph, hann var síðskeggjaður og hrikalega óhreinn að spá í tarrot spil fyrir vegfarendum. Ég skellti mér á lestur hjá honum þrátt fyrir að mér þætti þetta soldið skrítin spákona.....Og viti menn hann var bara nokkuð góður, ekkert kjaftæði um draumaprinsa og peningatré. Las bara spilinn nokkuð vel svo að hann virðist hafa stúderað fræðin áður en hann fór í bisness. Hann hlýtur að hafa grætt nokkuð vel eftir daginn því að næsta dag voru allt í einu 5 skuggalegir spákarlar í götunni......

2 Comments:

At 9:02 AM, Blogger theddag said...

Mér líst nú ekkert á að reyna að þýða þessa klausu úr bók kennarans og eiginlega vorkenni þér að þurfa að sitja undir þessari vitleysu :s

Varðandi matinn þá þarftu að skella þér á matsölustaði og kaffihús boragarinnar, þá mundu bæta á þig, ekki máttu horast meir, svo mikið er víst :d

 
At 2:08 PM, Anonymous Anonymous said...

Hello :-)
Búin að finna síðuna þína, frábær lesning, halta áfram á þessari braut.
Varð bara að segja þér það að diskunum þínum var skutlað inn um lúguna til mín svona sirka 10 sek eftir að ég talaði við þig, þannig að stynkpakkin þinn fer af stað á eihverjum allra næstu dögum. :-)

P.S. þetta með sekundurnar 10 eru sko engar ýkjur, ég var varla búin að leggja á, fannst það bara nokkuð skondið :)

 

Post a Comment

<< Home