Wednesday, September 28, 2005

Bíóferð, fyrirlestur og fleira

Jæja, ég er enn á lífi þrátt fyrir erfiði síðustu viku og kominn tími til að blogga á kaffinu með aðstoð hvítvínsglassins góða. Síðasta vika var bara erfið í skólanum, þurfti að undirbúa fyrirlestur um bók og lesa þessi lifandis ósköp í öðrum kúrsum.

Fyrirlesturinn var hálfgert hópverkefni og var nokkuð sögulegur. Ég hljóp um á náttfötunum eins og brjálæðingur í ca 5 daga í síðustu viku meðan ég var að reyna að þýða blessaða bókina og koma henni á skiljanlegt tungumál. Átti að dekka fyrri helming bókarinnar og strákurinn sem tók hana á móti mér seinni. Á sunnudaginn hittumst við síðan og ætluðum að ræða bókina og koma fyrirlestrinum saman. Það fyrsta sem drengur spurði um þegar við hittumst var: Átti ég ekki annars að taka fyrri helming bókarinnar? Vá hvað ég fölnaði.....við höfðum semsagt bæði glósað fyrri helminginn. Síðan þegar við tókum að ræða málið kom í ljós að drengurinn hafði tekið til lesningar ranga bók í þokkabót.......eftir allt annan finnskan fræðimann....Svo að hann skellti sér heim að lesa og viti menn, um kvöldið komu síðan glósur úr seinni hlutanum. Vá, og það tók mig heila 5 daga að fá botn í fyrrihlutan.....

Fyrirlesturinn var í gær og gekk hreint ekki svo vel. Þegar maður talar málið ekki 100% er alveg hræðilegt að halda fyrirlestur þar sem maður er stoppaður í miðjum klíðrum með spurningum. Þetta er það sem mér finnst erfiðast hér í Berkeley, tungumálið veldur því að ég get aldrei komið heilli fullmótaðri hugsun til skila þannig að aðrir skilji hana. Skildi ekki alveg allar spurningarnar og það sem verra var, strákurinn sem var með í fyrirlestrinum þurfti að fara áður en tíminn var búinn. Fyrirlesturinn átti að standa í ca 30 mínútur en stóð þess í stað yfir í 2 klukkutíma vegna umræðna um bókina. Komumst að þeirri niðurstöðu að bókinn væri fræðilega séð hálfgerður geðklofi og ég held að ég hafi bara ekki verið svo slæm í umræðunum eftir að félaginn fór(sem betur fer hafði ég lesið seinni hlutan líka).

Ég var hálfgert flak þegar ég kom heim í I-house eftir fyrirlesturinn. Hitti Scott, breskan kunningja minn í kvöldmatnum, sem var hræðilegur að vanda(það er að segja kvöldmaturinn en ekki Scott). Þar sem hann er nú engin nýgræðingur á fyrirlestrarsviðinu (hann er post doc í geimvísindum eitthvað), kunni hann að sjálfsögðu ráð við eftirfyrirlestrarstreitu, en það var að hrynja inn á næsta bar strax eftir fyrirlesturinn og drekka það sem eftir lifði dags. Mér fannst þetta breska ráð nokkur gott, fór ekki á næsta bar en fékk mér nokkra góða romm og kók heima í staðinn..... Og varð sko alveg slök...Skítt með fyrirlesturinn.....Gengur bara betur næst.

Eftir að ég hafði hesthúsað rommið góða fór ég í bíó með Caroline (Ír) og Lauru (Gb) og sá Líkbrúðina (The corpse bride). Mjög fyndin og skemmtileg mynd. Sérstaklega eftir romm og kók.....Bíóið var bara nokkuð flott allt í teppum og tjulli og sætin alveg hreint æðislega mjúk. En kannski var það samt bara rommið.......Þegar við fórum gat Caroline (sem er að læra drama performance), ekki stillt sig um að snerta risastórt auglýsingaskilti um myndina, með þeim afleiðingum að önnur festingin á því bilaði og það hálf hrundi yfir okkur....ákváðum að láta okkur hverfa í hvelli, áður en Caroline jafnaði bíóið við jörðu.......og hrundum inn á nálægan Írskan bar. Þessi bar var afar athyglisverður, það voru blöð og pennar á borðunum og einhver náungi að lesa spurningar allan tíman sem borðin áttu að svara....hálfgerður trivial persuit bar....finnst við ættum að hafa einn svona heima á klakanum....mun betra en bingó.

Skemmtileg þróun átti sér stað í Folklore 250 í dag, Miðvikudag. Í fyrsta skipti síðan ég byrjaði að sitja áfangan skildi ég hvað kennarinn var að tala um allan tímann(Sem er afar langur, þar sem kennarinn bætti klukkutíma við kennslutímann og hættir aldrei fyrr en hann er bókstaflega rekinn út af fólki sem bíður eftir stofunni. Einu sinni stóð kennslustundin í 3 kl. og 45 mín , já, frá kl 15-18:45, þar sem enginn rak okkur út úr stofunni. Stemmingin í kennslustofunni varð eins og í Phonebooth og Liberty stands still þar sem við vissum að við yrðum sennilega skotin ef við færum....og síðan kláraðist súrefnið....). Sorry hvað sviginn varð langur....en aftur að miðvikudeginum. Í ljós kom að Mike, breskur þjóðfræðinemi, hafði farið á fund kennarans og tilkynnt honum að það væru 4 erlendir nemar í áfanganum og ekkert okkar væri að skilja rassgat í því sem hann væri að segja. Kennarinn tók þetta til greina og stakk upp á því að Mike sæi um að dekka einn að textum dagsins í sinn stað....eins gott að ég kvartaði ekki.......svona á að takast á við kvartanir......Mike sá um að matreiða ofan í okkur textann en eitthvað hlýtur að hafa síast inn hjá kennaranum því hann var ekki alveg eins póst módernískur og venjulega...sem gerði hann bara nokkuð skiljanlegan......

Heimilislausi maður dagsins er skoskur að þessu sinni. Hitti hann á leiðinni í bíóið. Hann var allur út ataður í málingu og var að sníkja eld af okkur. Vildi ekki segja okkur hvernig hann endaði hér í Berkeley. Kvaddi okkur síðan með þessum orðum: jehb, youhb giiirls get fuuucking goooing to the friiiiking moooivee......

0 Comments:

Post a Comment

<< Home