Endurkoman
Ég biðst auðmjúklega afsökunar á því að hafa ekki gefið frá mér lífsmark þessa 11 daga sem liðnir eru frá því að ég sneri aftur hingað í Berkeleyborg. Ástæðan er krónísk flugþreyta sem hefur þjakað mig liðna daga og veldur því að á mér slokknar klukkan 10 á kvöldin, eða fyrir minn venjulega bloggtíma. Þetta er hið versta mál, ég vakna klukkan 9 á morganna, tek 3 tíma síðdegisblund ef hægt er eftir hádegi en er samt ennþá þreytt á kvöldin. Sambýlingar mínir hafa gert tvær tilraunir til að lækna þessa síþreytu mína með göróttu meðali sem gengur undir heitinu bjór þessa 11 daga, en ég er samt ennþá alveg jafnþreytt. Morgnanna eftir lækningartilraunir þeirra bættust bara mildir timburmenn ofan á alla svefnþörfina.Annars neyddist ég til þess að sleppa hvítvínsglasinu með þessu bloggi, sem eru eflaust ánægjulegar fréttir fyrir þann hóp lesenda minna sem um jólin tjáðu mér áhyggur sínar af hinu tíða hvítvínsþambi mínu. Ástæðan er sú að rétt fyrir jólin gekk kaffihúsið mitt hérna á International house í gildru lögreglunnar og seldu áfengi til tálbeitu undir 21 árs aldri. Þeir gátu valið um að borga risasekt eða missa leyfið í 6 vikur, og þar sem um fyrirsjáanlegan rólegan tíma var að ræða völdu þeir seinni kostinn. Þetta hefur það í för með sér að hér verður hvorki hægt að fá hvítvín né bjór þar til 23 janúar, en þann ágæta dag ætlar rjóminn af íbúum hússins að fjölmenna á kaffið og bergja á nýjabruminu.
Ferðalagið út var nokkuð skrautlegt og alveg hreint ótrúlega langt. Ég lenti á alveg réttum tíma í Minneapolis, eða 17: 30 að staðartíma (Bravó Flugleiðir!), það var víst meðvindur. Ég sat í miðjusæti á leiðinni þangað, mitt á milli stæðilegs karlmanns og ansi hreint breiðri Amerískri konu, svo að ekkert sást af mér á leiðinni annnað en vinstra augað og herðablaðið. Það hlýtur að hafa verið skondið að sjá okkur borða, því það þurftum við að gera alveg samtaka vegna skorðunnarinnar á öxlum okkar. Ég fór í gegnum reentríið og tollinn vandræðalaust í Minneapolis, þegar tollvörðurinn spurði hvort ég væri með einhvern mat tilkynnti ég kinnroðalaust að ég væri með: Two 500 ml bottles of Icelandic brennivín, some chocholate and some Icelandic snakk, it's a bit fishy...). Þetta síðasta var að sjálfsögðu steinbítsharðfiskurinn minn góði, heil 600 grömm og að því sem mér skilst alveg snarólöglegur hér í Ameríku. En tollarinn virti hreinskilni mína, spurði bara hvort að brennivínið væri fyrir bakstur og vínkaði mér svo í gegn.
Í Minneapolis voru töskurnar mínar hirtar af konu sem talaði ákaflega lélega ensku, og ég fékk strax ákveðnar efasemdir um það að farangur minn myndi skila sér á leiðarenda. Ég hitti annan Íslending á flugvellinum sem var að fara áfram til San Fransisco með sama flugfélagi og ég, Frontier airlines, og saman hlupum við endanna á milli á St. Paul flugvelli í leit að inntékkinu. Fundum það loksins og náðum bara nokkuð tímanlega í flugið. Flugvélin reyndist vera mjög flott, fékk mjúkt og gott gluggasæti með litlum sjónvarpsskjá og ótal sjónvarpsstöðvum. En rétt fyrir flugtak mælti flugstjórinn þessi orð: Góðir farþegar, eftir 2 mínútur munum við taka á loft til Denver!!! Mér brá að sjálfsögðu illilega í brún enda ekki stafur um Denver í mínum ferðaskjölum. Svo að ég hnippti í næsta mann og spurði hvort að þessi vél væri ekki örugglega að fara til San Fransisco líka? Svo reyndist vera, en ég fékk að skoða flugvöllinn í Denver í næstum því tvo klukkutíma í millitíðinni og var á þeim tímapunki orðin allsvartsýn á farangurheimtur, þar sem flugvellirnir voru núna orðnir þrír talsins. Ég lenti um klukkan 11 að staðartíma í San Fran, ég og hinn íslenski samferðamaður minn stóðum drjúga stund árangurlaust við farangursbandið ásamt 3 öðrum farþegum Frontiers. Þegar slokknaði á bandinu röltum við yfir á lost luggage skrifstofuna ásamt himum þremur, en þegar þangað var komið uggvötvaðist að við vorum reyndar öll fimm Íslendingar. Svo að ég býst við að eitthvað hafi klúðrast í Minneapolis með töskurnar úr Icelandair. Annars var bara fínt að labba farangurslaus út af flugvellinum, ég tók bara Bartlest heim og fékk síðan töskurnar heimsendar næsta dag.
Í þessari viku hófst síðan kennsla hér í Berkeley háskóla, og svo einkennilega vill til að bæði námskeiðin mín eru kennd á þriðjudögum, annað frá klukkan 9-12 og hitt frá 15: 30-18:30. Semsagt, langir þriðjudagar framundan í vetur. Fyrra námskeiðið er framhaldsnámskeið af hinu póst móderníska folklore 250a, en í þessum hluta á víst að færa fókusinn frá kenningum dauðu, evrópsku karlmannanna sem skópu fræðigreininga og voru víst ekki alveg nógu pólitical correct, yfir til lifandi fræðimanna 20 aldrinnar. Hugmynd mín um ritgerðarefni fyrir áfangann, etnískir aðrir í íslenskum sögnum og þjóðtrú, vakti engan fögnum hjá kennara áfangans, Briggs, það var víst hvorki nógu pólitískt né nútímalegt. Held að hann vilji að ég skrifi einhvað um íslenska erfðagreiningu í staðin.....? Skildi hann samt ekki almennilega, en ég er viss um að mér leggst eitthvað til. Annars er ég að hugsa um að setja bara hitt efnið inn í lesáfanga sem ég ætla að reyna að koma á koppinn í staðin fyrir Scandinavian 250 sem var því miður tekinn af dagskrá. Víkka bara efnið upp og kalla það etnískir aðrir í Skandinavískri þjóðsögum og treð mér þannig aftur inn í Skandinavíudeildina. Seinna námskeiðið sem ég tek á þriðjudögum er mjög spennandi, það nefnist Theories of narrative, kennt af Katharine Young, og fyrsti tími gefur til kynna að nú fái maður loksins að vita hvað narrative eiginlega er. Námskeiðið er annars fullt af mannfræðingum auk þjóðfræðinga og ég hafði nettar áhyggjur af því að fjölmennið gæti valdið því að ég fengi ekki inni á því. En Young reyndist hin almennilegasta þegar ég spurði hana, ég hef grun um að þetta námskeið verði það gagnlegasta í allri dvöl minni hér í Berkeley og hlakka bara mikið til þriðjudagssíðdeginna.
Þrátt fyrir þreytuslen hef ég afrekað að fara tvisvar í bíó eftir að ég kom aftur hingað út, sem er 50% auknin í bíóferðum frá síðustu önn. Sá mjög góða mynd sem hér Capote með Michael (perúskur) og tveimur nýkomnum stúlkum sem mér hefur ekki ennþá tekist að læra nöfnin á, held samt að önnur hafi verið kínversk og hin amerísk. Síðan fór ég á þá blóðugu mynd Hostel með Nick (grísk-amerískur), fannst hún soldið gorug en var bara allt of þreytt til að halda fyrir augun eða öskra. Það vakti samt athygli mína að Íslendingurinn í myndinni var drepinn fyrstur, svo að ég ætla bara að láta það vera að ferðast um Austur Evrópu næstu misserin.
1 Comments:
hæ júlíana
datt í hug að láta þig vita að ég hef verið að kíkja aðeins á bloggið þitt,
kveðja
dagný
Post a Comment
<< Home