laser yfirstaðin, soldið blurrý
Þá er ég enn og aftur á kaffinu með hvítvínsglas, en að þessu sinni alein og yfirgefin þar sem flestir hafa yfirgefið I-húsið vegna Þakkargjörðarhátíðarinnar. Sem er bara mjög gott þar sem það skapar afar gott næði fyrir heimanámið. Ég get ekki sagt að ég sakni þess að gera mér dagamun þessa helgi, því að ég hef jú lifað án Þakkagjörðarkalkúns í 33 ár og tel mig því alveg geta sleppt þessari hátíð. Mér stóð reyndar til boða að vera ættleidd þessa helgi af Amerískri fjölskyldu, en taldi það vera helst til seint í rassinn gripið, þar sem ég er nú 33 ára gömul og ætti eiginlega að eiga fjölskyldu sjálf......Það er helst að frétta að frétta að lasik augnaðgerðin er yfirstaðin. Já, þið lásuð rétt, ég er núna gleraugna og linsulaus, að vísu ennþá hálfblind eftir aðgerðina en vona að það lagist á næstu dögum. Ég fór í tékk á fimmtudaginn sem leiddi í ljós að ég var ágætis kandídat fyrir svona aðgerð og fékk tilboð upp á 3500 dollara, sem er hellings peningur, en samt ekki eins dýrt og heima. Þar sem Buddi Holly gleraugun góðu voru við það að detta í sundur og það hefði verið hreinsta bruðl að kaupa ný og ætla hvort sem er að fara í aðgerðina á næstu mánuðum, ákvað ég að hoppa á tilboðið. Og gat valið um síðasta mánudag eða ekki fyrr en í desember. Svo að á mánudaginn mætti ég á augnlæknastofuna í fylgd Julie (dönsk) og lagðist undir laserinn. Fékk valíum fyrir aðgerð, sem stóð aðeins í ca 5 mínútur. Hjúkkan lét mig fá verkjatöflur, svefntöflur og 4 tegundir af augndropum í nesti og síðan var ég send heim með svört stórkonusólgleraugu sem huldu nánast allt andlitið á mér(sennilega aðeins framleidd í einni stærð). Og var mikið feigin að hafa tekið Julie með mér, því annars stæði ég sennilega ennþá fyrir utan augnlæknastofuna í valíumrús....
Þegar að heim var komið át ég svefn og verkjatöflurnar góðu og lagðist undir feld, eftir að hafa sett upp þau alljótustu bólstruðu skíðagleraugu sem ég hef á ævi minni séð. Þennan hrylling á ég víst að sofa með í heila viku, og er tilgangurinn sá að ég klóri mér ekki í augunum eða kýli sjálfa mig í svefni. Þetta eru ekki einu svefnóþægindin, því að auk þess þarf ég að sofa á bakinu með kodda sitt hvoru megin við hausinn. Tilgangurinn með þessu er víst sá að koma í veg fyrir að ég rúlli á hliðina og skapi þrýsting á annað augað. Þið ættuð bara að heyra hroturnar sem ávallt fylgja mínum baksvefni.....Og svo eru það blessaðir augndoparnir, ein tegund á 2 kls fresti og önnur á 4 kls fresti....og aðrar tegundir eftir viku. Annars hef ég smá áhyggjur af árangrinum, þar sem ég sé alveg ágætlega orðið með öðru auganu en ekki með hinu. En ég sá annars verr með hægra auganu áður, svo að kannski þurftu þeir að gera meira við þar.....En ég vona að þetta verði ok á næstu dögum, því að annars rek ég upp skaðræðis öskur í augntékkinu í næstu viku......
Annars er fátt annað að frétta, ég fór í matarboð til Scotts (breskur og alsgáður að þessu sinni), í gær með Julie hinni fyrrnefndu. Hann er að passa höll einhverns vinnufélaga uppi á fjalli, og sótti okkur um kl 18:30, svo að í þetta skipti slapp ég alveg við að villast strætanna á milli. Við snæddum mjög góðan marakóskan túnfiskrétt og horfðum á sjónvarpið, það er að segja þau horfðu á sjónvarpið og ég giskaði á hvað væri að gerast á skjánum þar sem sjónin var soldið blurrý eftir aðgerðina. En þarna fer ég að öllum líkindum aftur á morgun í Þakkargjörðarkvöldverð. Þar sem Scott er grænmetisæta (borðar samt fisk), verður alveg örugglega ekki kalkúnn á borðum. Hann harðneitar að gefa upplýsingar um matinn en ég vona að það verði ekki soyakalkúnn......eða baunastappa.
2 Comments:
ég ætla einmitt í svona aðgerð þegar ég er orðin stór:) ... vissi samt ekki þetta með að mega ekki snúa sér í svefni eftir aðgerðina ... svefntöflurnar þurfa að vera ansi sterkar til að ég hreyfi mig ekki í svefni;)
Vaá til hamingju með sjónina :D
Post a Comment
<< Home