Monday, October 17, 2005

Lífsmark

Nei, nei, ég er ekki dáinn, bara búin að standa í mjög ströngu í náminu. Sem hefur ekki skilið eftir neinn tíma fyrir hvítvín og blogg. En nú er þessum álagspunkti lokið, því í þessari viku er stór þjóðfræðiráðstefna í Atlanta og því engin kennsla út vikuna. Sem er mjög gott því að næsta vika verður botnlaus törn, framsaga í þarnæstu viku og svo eru það náttulega alllar ritgerðirnar sem enn eru óskrifaðar......

Í síðustu viku setti Briggs allt á annan endan hjá mér með því að skella á mig óvæntu aukaverkefni. Þetta var eiginlega eins og þjóðsagan af Sæmundi Fróða, þessi sem fjallar um námsárinn hans í Svartaskólanum í Sorbonne.......Fyrir þá sem ekki hafa heyrt hana er hún í stuttu máli einhvernmegin á þessa leið og í nútíma útgáfu:

Satan hirðir ávallt þann síðasta sem yfirgefur Svartaskóla. Þar kemur að Sæmundur verður fyrir því óláni að verða síðastur út. Og Satan segir: hah, nú tek þig. En Sæmundur hefur að sjálfsögðu ráð undir rifi hverju, bendir Skrattanum á skuggan sinn og segir honum að þessi gæi sé sko síðastur en ekki hann. Og skrattinn hirðir skuggann og eftir það var Sæmundur skuggalaus.

Ójá. Og síðasta miðvikudag var ég síðust út úr kennslustofunni, sem þýddi það að Briggs greip í öxlina á mér og sagði: Mér finnst að þú ættir að tala um Íslensku fornritin í næsta tíma út frá textum vikunnar, Herder og þjóðernisrómantíkinni. Ég var næstum því búin að segja: Nei, Nei, taktu frekar skuggan minn.......En kennnarar eru kennarar svo að auðvitað sagði ég bara já. En ef ég kem heim skuggalaus, þá vitið þið hvað gerðist.......

Tíminn hjá Briggs var annars færður frá miðvikudegi til mánudags vegna ráðstefnunnar. Sem þýddi það að í dag hóf ég upp raust mína og talaði um íslensk fornrit, Herder, Herzfeld og þjóðernisrómantík. Og skoraði alveg feitt....og notaði fullt af orðum eins og taxinomy, authenticity, purportedly homogeneous.......Já, þetta var hreinasta orðníð......en ég sá að ég fékk langa línu á blaðinu dulafulla sem maðurinn krassar á þegar við stynjum einhverju upp í tímum. Sem ég vona að sé gott.......

Félagslífið hefur verið með daufasta móti upp á síðkastið, sem er kannski eins gott vegna vinnuálagsins......Brá mér þó í salsaklúbb einn síðasta miðvikudag með það fyrir augum að æfa þau örfáu spor sem mér tókst að læra á námskeiðinu góða í upphafi dvalar minnar í I-húsinu. Þegar í klúbbinn var komið sá ég að allir dansararnir á gólfinu voru í allt öðrum og betri gæðaflokki heldur en ég..........Svo að ég ákvað að tilla mér á barinn meðan fólkið sem ég fór með tók nokkrar sveiflur á gólfinu. Við hliðina á mér á barnum sat eldri herramaður sem kynnti sig sem Oskar og mun vera frá Guatemala. Ef þið hafið séð kvikmyndina Guðföðurinn, þá leit maðurinn eiginlega út eins og guðfaðirinn í þeirri ágætu mynd. Þessi ágæti en mafíulegi maður tók upp á því að kaupa einhver ósköp af drykkjum handa mér....sem ég kurteislega reyndi að afþakka með litlum árangri.....drakk nokkra fyrir kurteisis sakir.......og var bara þó nokkuð slompuð þegar félagar mínir gáfust upp á að dansa og við fórum heim. Maðurinn bað um símanúmerið hjá mér og ég reyndi að gefa honum rangt númer (skrifaði 4 eins og níu og fleira sem gæti bara verið slæm skrif ef ég skyldi einhverntíma rekast aftur á manninn....). Eins og ég sagði var ég nokkuð slompuð og þegar ég kom heim fékk ég símtal frá náunganum........sem var ekki gott....eitthvað hafði greinilega farið úrskeiðis.....Svo að núna svara ég bara ekki í síman ef að ég þekki ekki númerið. Og ég ætla sko aldrei að fara í þennan salsaklúbb aftur....

1 Comments:

At 11:12 AM, Blogger theddag said...

Kannski var gaurinn lesblindur og því getað lesið þetta hrafnaspark ;) En viltu senda mér símanúmerið þitt í tölvupósti, svo við Brækur getum nú hringt í þig :)

 

Post a Comment

<< Home