Tuesday, October 25, 2005

Danskir piparsveinar, háhýsaklúbbar og hrekkjavaka framundan

Jæja, komin á kaffið og með rauðvínsglas að þessu sinni, hvítvínið var búið. Síðasta vika hefur verið vægast sagt annasöm, svo slæm að ég hef hreinlega ekki haft tíma til að greiða mér á morgnanna, hvað þá að púðra á mér nefið. Of hef fyrir vikið títt verið spurð að því hvort ég sé nokkuð lasin.....? Já, ég er föl án púðursins.

Ástæðan þessu sinni er sú að ég hef verið að streða við að greina 19. aldar efnisskrá í einum áfanganum mínum, sú liggur eftir danskan piparsvein, Peter Johansson að nafni. Og ég hef sko streðað og streðað við að sortera sagnirnar hans og reyna að búa til einhverjar kenningar um hann og samfélagið í Skanderborg. Og fundist allan tíman að ég væri sennilega ekki nógu góð, og allir hinir hlytu að standa mér miklu framar í áfanganum (eins og venjulega). Ég átti að flytja fyrirlesturinn í dag en hann frestaðist fram í næstu viku þar sem fyrsta efnisskráargreiningin dróst nokkuð á langin. Þessi fyrsti efnisskráarfyrirlestur tók þó úr mér skelkinn, þar sem það rann fljótlega upp fyrir mér að samnemendur mínir hafa sennilega aldrei séð efnisskrá áður né gert tilraun til að greina hana með nokkrum hætti. Þetta er munurinn á skandinavískri þjóðfræði og þeirri amerísku í hnotskurn; Við erum að streða við að greina gögnin og vinna úr þeim einhverjar kenningar meðan þau eru að lesa kenningar fræðimanna um það hvað sé þjóðfræði, hvernig eigi að skilgreina hitt og þetta og svo framvegis. Þessvegna eru þau svona fjandi góð í því hver skrifaði hvað og hvaða merking stendur að baki hugtökum eins og genre, metafolklore, narrative schemes og fleira sem ég skil aldrei fullkomlega. En sjáum til hvernig fer í næstu viku og hvernig mér gengur að skila frá mér Peter Johannsson á engilsaxneskri tungu......

Annars hefur fátt skemmtilegt gerst á síðustu dögum. Ég skrapp þó til San Fran á fimmtudagskvöldinu og leit við í klúbbi sem kallaður er The top of the mark og er til húsa á efstu hæð á háhýsa hóteli. Var sagt áður en ég fór að þetta væri nokkurskonar tískuklúbbur og ég þyrfti því að vera settlega klædd. Fór í kjól (já, ég á einn), og leið eins og Mary Poppins þegar í klúbbinn var komið þar sem flestir viðstaddra voru í gallabuxum........Skemmti mér samt þokkalega vel, hitti skemmtilegan náunga frá Indiana sem tilkynnti mér strax að hann ynni í Wells Fargó bankanum......Hafði víst hitt einhverja fyrirsætuna sem þarna voru á sveimi og sú hafði tekið til fótanna þegar hún komst að því að gaurinn væri svo fátækur að hann þyrfti að vinna fyrir sér......Já, þetta er harður heimur. En kvöldið endaði klukkan 01 þegar ein af ferðafélögunum varð illa veik (peðölvuð), og þurfti að komast heim ekki seinna en strax. Sem var alveg í lagi þar sem skemmtilegi gaurinn frá Indiana var farinn heim.....En það var meiriháttar mál að komast heim til Berkeley, þar sem fyrsti leigubíllinn sem við tókum henti okkur út á fyrsta götuhorni sökum hræðslu við að sú ölvaða ældi. Svo við döguðum uppi þrjú á götuhorni í San Fran með þá veiku (peðölvuðu) hálfrænulausa. Ævintýrið endaði síðan lukkulega, þar sem ég gómaði annan taxa og bauð honum 30 dollara aukalega ef sú rænulausa ældi.... sem hún gerði ekki, mér og veskinu mínu til mikillar gleði.....og við komumst heim á endanum.

Næsta mánudag rennur upp stór stund hér í Ameríku. Þá er Hrekkjavaka sem mér hefur skilist að sé mjög merkilegt fyrirbæri. Ég borðaði með nokkrum af skólafélögum mínum í dag, og þá kom upp sú hugmynd að skreppa í hverfi í San Fran á mánudagskvöldið sem er kallað Castro og er víst hommahverfi borgarinnar. Þar ku allt um koll keyra á hrekkjavöku og þar má víst sjá alla bestu búninga borgarinnar. En þetta kallar víst á það að ég verði mér út um búning......Og ég lýsi hér með eftir tillögum.......

1 Comments:

At 1:48 AM, Anonymous Anonymous said...

Það verður að sjálfsögðu að vera eitthvað á þjóðlegum nótum er það ekki? :)Loðni maðurinn til dæmis :D
Fær örugglega hárin til að rísa á einhverjum :)

 

Post a Comment

<< Home