Skómaðurinn vinur minn....
Ég geri aldrei neitt skemmtilegt um helgar. Nema bara að blogga. Og er að drekka kaffi að þessu sinni í stað hvítvínsins......ég býst við að áróður bindindismanna heima um jólin hafi náð eyrum mínum eftir allt saman...En þessa helgina eru allir fjórir náungarnir sem stundum leggja leið sýna um helgar að endimörkum þessa alþjóðaheims sem ég bý í, herbergi 817 í I-house, ýmist í ferðalögum eða á ráðstefnum. Svo að þessa helgina á ég víst enga vini. Annars ætla ég að gera könnun næstu fjórar helgarnar sem ég hef kosið að kalla hversu marga vini áttu í húsinu, en þessi könnun felst í því að telja hversu margir leggja á sig hið erfiða ferðalag upp á 8 hæð um helgar og banka á dyrnar hjá mér. Býst við að útkoman verði heldur léleg þessa helgina.....humm....og ef að lyftan bilar einu sinni enn verð ég sennilega að fresta könnuninni alveg..... En í þessu húsi allt of margra kunningja, ringulreiðar og æsku er svolítið erfitt að átta sig á því hvort maður eiginlega á einhverja alvöru vini svo að ég býst við að könnunin verði bæði fróðleg og gagnleg.Annars áttaði ég mig á því í morgun hversvegna síminn í herberginu mínu hringir aldrei. Hann reyndist ekki vera í sambandi og hefur víst ekki verið það síðan morguninn eftir að ég kom hingað aftur. Þá hringdi nefnilega Skómaðurinn, sjálfsagt búin að rembast við að ná í mig öll jólinn árangurslaust. Já, kannski ætti ég ekki að vera að kvarta yfir vinaskorti, Skómaðurinn hafði greinilega saknað mín sárt og virtist afar glaður að heyra í mér......Ég var samt að sama skapi ekki mjög glöð eða ræðin þennan morgun, enda sárt þjökuð af flugþreytu, og aftengdi því símann í snarhasti. Og gleymdi víst að setja hann í samband aftur......
Í þessum orðum töluðum kom í ljós að ég á að minnsta kosti einn vin. Astrid (frönsk) byrtist í þessum orðum töluðum og settist hjá mér með hvítvínsglas. Þar sem hún býr ekki í húsinu telst hún víst ekki með í könnuninni minni. En ég ákvað nú samt að fagna komu hennar með því að fá mér hvítvínsglas til samlætis. Og ulla hérmeð bara á bindindismennina.
Annars er víst eins gott að helgin verði róleg, þar sem ég þarf að lesa 3 ca 350 bls bækur fyrir næstu viku. Og er bara búin með eina þeirra. Það er ekkert smá lesefni í áföngunum mínum og ég botna ekkert í því ennþá hvernig samnemendur mínir fara að þessu. En annars eru góðu fréttirnar þær að JL féllst á efni mitt fyrir lesáfangan, það er um etníska aðra í Skandinavískum sögnum og þjóðtrú. Þetta er svona uppbót fyrir ritgerðarefnið sem ég fékk ekki að taka í folklore 250b, ég er bara búin að víkka það svolítið upp.
Í gær mætti ég í hinn víðfræga Saga klúbb hér í Berkeley, sem er hópur af fólki sem hefur það tómstundargaman að hittast einu sinni í mánuðu og þýða yfir á ensku texta íslenskra fornrita. Þetta er að sjálfsögðu aðeins yfirskin fyrir drykkju og át, eins of títt er með slíka klúbba. Ritið sem nú er verið að þýða í þessum ágæta klúbbi er Heimskringla, og var mér strax fengin texti til þýðingar, og ég held að ég hafi bara komist nokkuð vel frá honum. Brotið mitt var um viðureign Ólafs helga við erfiða bændur sem ekki vildu þýðast kristina trú. Og þurfu mikið að þinga, sem ég þýddi víst sem congressa.......En þetta var bara nokkuð skemmtilegt og ég mun áreiðanlega mæta aftur.
0 Comments:
Post a Comment
<< Home