Friday, February 03, 2006

Bömmer Baush and Lomb tækninnar of fleira

Það er föstudagskvöld hér í Berkeley borg og ég sit á bloggborðinu mínu hér á kaffinu með Kakóbolla (Já, þið lásuð rétt), og reyni að vanda að summa saman atburði vikunar í þetta rugl sem ég kalla blogg. Vikan var bara nokkuð viðburðarrík, þar sem ég hitti loksins aðra Íslendinga hér í borg, borðaði á svakalega flottum veitingastað, fór í augntékk og á dansnámskeið. Skil bara ekkert hvernig ég hafði eiginlega tíma fyrir þetta allt saman. En kannski er enskan mín bara orðin svo góð að ég les helmingi hraðar en áður. Ég náði að minnsta kosti að lesa allar 800 bls sem voru á leslista þessarar viku fyrir tímana sem er bara nokkuð góður árangur.

Annars komst ég að því að það er reyndar fullt af fólki sem leggur það á sig að klöngrast upp á áttundu hæð til að finna mig, meira segja um helgar líka, það kemur víst bara alltaf þegar ég er ekki heima. Það var nefnilega eitthvað Húlapartý hér í I-húsinu síðasta laugadag, ég var ekki heima, því þess í stað hafði ég ákveðið að skella mér í gleðskap hjá leynifélagi hinna földu Íslendinga á flóasvæðinu. Og þegar ég kom til baka um nóttina var skilaboðataflan mín öll útkrotuð. Ég meina það, bara allir að leita að mér...... Hvar er þetta fólk eiginlega þegar ég er heima.....? En annars er ég að hugsa um að gefast upp á tilrauninni og snúa dæminu við og gerast bara síbankandi plága á dyrum annarra hér í húsinu. Eftir allt saman þarf ég jú að fara framhjá öllum hinum hæðunum líka þegar ég fer heim til mín.

Ástæðan fyrir því að ég hef gefið Íslendingahópnum hér um slóðir nafngiftina Leynifélag hinna földu Íslendinga á flóasvæðinu liggur í því hvernig ég komst að tilveru þeirra hérna. Ég hitti nefnilega Bandaríska konu í Saga klúbbnum í síðustu viku sem vissi allt um þetta fólk. Hún var alveg svakalega leyndardómsfull þegar hún pískraði því í mig þegar við vorum að fara heim að hún þekkti nú nokkra Íslendinga hér um slóðir og þeir ætluðu að hittast um helgina. Og endaði á: suss, ekki segja hinum....En hún hringdi síðan á laugardaginn og sótti mig, hittingurinn var á heimili Garðars nokkurns í Okland og þar reyndust vera 4 aðrir Íslendingar auk amerískra velunnara. Borðaði frábæran mat og horfði á ágætis ræmu með þessum skemmtilega hóp. Ég er núna komin á email listan hjá þeim sem þýðir að ég mun að öllum líkindum fara að fá upplýsingar um þjóðlega praktíska hluti. Til dæmis þorrablót, sem að hér um slóðir er víst ekki haldið fyrr en í mars af einhverri ástæðu.....

Á mánudagskvöldinu ákvað ég að gera tilraun tvö til að læra að dansa Salsa. Mætti reyndar á eitt námskeið á síðustu önn en varð að hætta vegna tímaskortar. Eins og í haust mættu miklu fleiri karlmenn en konur á þetta fyrsta námskeið, konurnar voru ca 15 en karlarnir a.m.k. 25. Sem var stórvandamál, konur virðast ekki eiga í neinum vandræðum með að dansa hver við aðra en tveir karlar....? Ónei, meira segja hér í landi dansandi karlmanna er fráleitt að tveir karlar sætti sig við að dansa saman í kvennahallæri, svo að ca 10 karlar sátu bara hjá í hverjum dansi og biðu eftir að röðin kæmi að þeim að fá að dansa við einhverja af konunum 15. En því miður virðist ég hafa tvo vinstri fætur, samt steig ég bara einu sinni á dansherratær þennan klukkutíma og ca þrisvar á annarra kvenna dansherratær. Veit ekki alveg hvernig ég fór að því samt...

Á þriðjudagskvöldinu gaf ég frat í hænsnafóður það sem þeir kalla mat hér í mötuneyti Ihouse og fór við sjötta mann á Perúskan veitingastað í San Fransisco sem nefnist víst Fresko eða einhvað svoleiðis. Fór með Bilal (pakistanskur), Michael (perúskur), Angelu (kínversk), Jennifer (Amerísk) og chileskum vini Bilals og Michael sem ég get engan vegin munað nafnið á. Hlýtur að vera eitthvað langt og erfitt nafn..... En maturinn var alveg geggjaður, Michael pantaði fyrir okkur brot af því besta úr perúskri matarhefð sem við síðan deildum á milli okkar. Ég held að þessi matur eigi eftir að lifa lengi í minningunni og verma hjarta mitt meðan ég velti um í munni mér fiski sem hægt væri að rota mann með, afgamalli kjúklingakássu og myglum kartöflum hér í mötuneytinu alræmda.

Kannski eru stærstu fréttir vikunnar niðurstaða augntékksins í El Corrito í gær. Í stuttu máli kom í ljós að ég er hinn stóri bömmer nýju Baush and lomb lasik tækninnar. Eftir óteljandi tékk reyndist árangur fyrri aðgerðar ekki nægjanlega góður til þess að ég gæti staðist sjónkröfur ökuleyfa hér í Californíufylki, ég er ennþá það rækilega í mínus á hægra auga. Mér létti samt nokkuð við að heyra þetta því ég hef haft alvarlegar áhyggjur af bandarískum ökumönnum eftir að fyrsta tékk leiddi í ljós að ég mætti alveg keyra gleraugnalaus..... En það eru víst aðeins 3 af 100 sem ekki hafa fengið viðunandi árangur með þessari tækni í fyrstu tilraun útskýrðu hvítslopparnir 3 fyrir mér. Já, þeir hötuðu mig allir......En vandinn er sá að það er afar lítið svigrúm eftir til lagfærina vegna þykktar hornhimnunnar, og þeir enduðu mál sitt með þessum orðum: Dr Ellis himself has got to look at this and deside personally what is the best thing to do. Dr Ellis er semsagt augnlæknirinn sem stofnaði dr Ellis lasikstofukeðjuna hér í landi og tónninn í röddum þeirra gaf til kynna að hann væri svona nokkurskonar guð almáttugur lasik tækninnar. Held þeir hafi barasta dropið höfði allir saman í auðmýkt þegar þeir sögðu nafn hans. En að öllum líkindum verður hægt að lappa einhvað upp á þetta, vandinn er bara sá að ég gæti hugsanlega þurft að fara alla leið til San Jose í einhverja súpertækni þar. Þarf samt ekki að borga meira sem er léttir, augun í mér eru víst í einhverskonar ábyrgð..... En mér lýst samt ekkert á það að þurfa að fara með lest frá San Jose eftir aðgerð, staurblind og á valíum.....humm, gaman annars að fá valíum aftur.....rosagott.

1 Comments:

At 5:24 PM, Anonymous Anonymous said...

Júlla mín, alltaf jafn gaman að lesa bloggið þitt.
Hvenær er áætluð heimkoma?
Kveðja úr Klaustrinu
Kalli og Svana

 

Post a Comment

<< Home