Thursday, February 15, 2007

Ég er alger proffi....svona á köflum

Vá, það er bara búið að flytja mig yfir í einhvern spánýjan blogger sem ég veit ekkert um. En þeir lofa víst að allt gamla bloggið verði samviskusamlega flutt yfir og að þetta nýja form sé miklu tæknilegra og betra. Svo kannski get ég loksins skipt út þessari hræðilegu mynd af mér þar sem ég sit sauðdrukkin í grasinu og Guðrún setti inn á sínum tíma (takk samt Guðrún, ég vil ekki hljóma vanþakklát, en .......).

Eftir að hafa komist að þeirri niðurstöðu að ógerlegt væri að finna nafn á ráðstefnuabstractinn sem ég var að reyna að skrifa í upphafi þessarar viku hef ég ákveðið að sleppa bara þessari blessaðri ráðstefnu sem ég get hvort sem er ekki munað hvar og hvenær átti að halda. Vandræðagangur í vali á heiti erindis bendir nefnilega til þess að maður hafi ekki minnsta grun um hvað maður ætlar að tala um, svo að ég held að ég sé bara ekki komin alveg nógu langt með ritgerðarskrifin mín til þess að áætla framtíðar fyrirlestra um efni hennar. En ég er viss um að það koma ráðstefnur eftir þessa ráðstefnu og verð bara aðeins meira tilbúin næst.......

Annars er það helst að frétta úr framhaldssögunni Júlíana tæknivæðist, að Jói símvirki í Vík hefur ennþá ekkert látið sjá sig með nýja, fína og flotta ADSL (sko, rétt skammstafað) tenginguna mína. Ég fékk reyndar sent eitthvað appparat frá símanum og reyndi að tengja það sjálf í örvæntingu minni, en í ljós kom að apparatið það tarna var bilað (bilað við komu alltsvo en ekki vegna meðferðar minnar). Svo að eftir mörg, mörg símtöl við þjónustuver símans lofuðu þeir að senda formlega beiðni til Jóa sím., láta hann koma með nýtt apparat og tengja það fyrir mig. Þetta hafði víst ekki verið gert þegar ég pantaði ADSL tenginguna upphaflega; líklega hafa þeir gert ráð fyrir að ég væri annað hvort svo tæknivædd að ég gæti tengt þetta allt saman sjálf eða svo tæknifötluð að mér myndi duga að mæna á apparatið sjálft í lotningarvímu.

Í gær gerðist ég svo fræðimaður með meiru og ók út um allt plássið með þjóðtrúarkannanir í farteskinu og neyddi upp á grandarlausa íbúa þessa samfélags. Fór í sjoppuna, búðina og Kaupþing póst (sparnaðarráðstafanir í þessu plássi hafa leitt til sameiningar bankans og pósthússins). Til að kóróna fræðimannsheitin þurfti ég náttúrulega að gleyma bílnum mínum í búðinni og var gengin hálfa leið heim áður en ég fattaði það. Að þessu sinni held ég þó að enginn hafi tekið eftir þessu; ég gekk bara til baka eins og ég væri á hreinni skemmtigöngu og hefði einmitt skilið bílinn viljandi eftir á miðju Kjarvalsplaninu (og svona leikaraskapur er sko erfiður í plássi þar sem allir þekkja alla og vita allt um það hvaða bíl maður á). Annars held ég að þessi gleymska hafi ekki verið nein tilviljun, heldur skilaboð frá undirmeðvitundinni. Líklega var hún að reyna að segja mér að ég þyrfti nauðsynlega að fá mér nýrri og flottari bíl......

Ritgerðarskrif mín mjakast áfram á hraða snigilsins þessa dagana og eftir nokkra vikna barning er ég einungis komin á bls 10. Akkúrat núna er ég að klára að skrifa um samanburðarrannsóknir og hef rekist á vegg hinna torráðnu textatengsla. Og hef grun um að ég muni dvelja við þann vegg lengi, lengi........

2 Comments:

At 5:15 AM, Blogger theddag said...

Hvað á ritgerðin þín að vera löng? Er hún til 15 eða 30e?
kv, Edda

 
At 5:21 AM, Blogger Syneta said...

Hurðu, þetta gengur ekki ... núna erum við næstu nágrannar þannig að þessi blessaða mynd fær að fjúka við fyrsta tækifæri!! Hvenær er mér boðið í heimsókn? ;)

 

Post a Comment

<< Home