Wednesday, December 20, 2006

Klaustur-Selfoss, not express

Tilgangur ferðar: Að sækja Pálu systir á Selfoss

Áætlaður komutími á Selfoss: kl 13:30
Áætluð heimkoma: kl 18:00

Kl: 11:30-12:00: Bíllinn bilaður við Kerlingardalsá á Mýrdalssandi. Sjúkdómslýsing: er alveg stjórnlaus, út og suður á veginum og eitt dekkið pikkfast. Viðbrögð mín: Drep á bílnum og hringi í mömmu. Greining mömmu: Það er farin lega eða steinn í bremsuskálinni. Viðbrögð við upplýsingum: farið út í mígandi óveður og öll dekk hrist. Niðurstaða: Öll dekk pikkföst og þar sem þau eiga að vera.

Kl: 12:00-13:30: Ekið varlega áfram til Víkur og bifvélavirki í hádegismat fundinn í Víkurskála. Sjúkdómsþróun: Bíll virtist alveg í lagi þennan spöl til Víkur. Viðbrögð Bifvélavirkja: Kláraði matinn sinn og athugaði síðan bílinn. Greining bifvélavirkja: Kvenleg móðursýki. Viðbrögð við upplýsingum: Ekið áfram áhyggjulaust. Kostnaður: 1000.

Kl: 14:00: Pála systir soldið stressuð á Selfossi......

Kl: 14:00-14:30: Bíll aftur bilaður, að þessu sinni við Markarfljót. Sjúkdómslýsing: Alveg stjórnlaus, út og suður á veginum, ýl og væl og eitt dekkið pikkfast. Viðbrögð mín: Drep á bílnum, tékka á dekkjafestingum, reyki ca 3 sígarettur og hringi aftur í mömmu. Ráð mömmu: Engin að þessu sinni, en ansk. gott að heyra röddina.....Niðurstaða: Að hvíla bílinn áður en haldið er áfram.

Kl 14:30-16:00: Bíll höktir inn á Hvollsvöll með látum og allur út og suður á veginum. Viðbrögð mín: Að leita uppi bifvélaverskstæði númer 2. Viðbrögð bifvélavirkja: Skaffa kaffi og líta á bílinn ca klukkustund seinna. Greining bifvélavirkja: Kvenleg móðursýki. Viðbrög mín við upplýsingum: Megn vantrú sem kallar á reynsluakstur. Niðurstaða reynsluaksturs: Allt virðist í lagi. Kostnaður: 1000.

Kl. 16:00: Pála systir alveg að tapa sér á Selfossi.....

Kl. 16:30-17:00: Bíll enn og aftur bilaður, út og suður á veginum og lætin aldrei meiri. Viðbrögð mín: Reykja margar, margar sígarettur meðan bíllinn hvílir sig aðeins. Niðurstaða: Keyrt varlega áfram á Selfoss og stoppað á 5 mín. fresti til að hvíla bílinn.

Kl. 17:30. Komið inn á Selfoss, bíllinn ennþá bilaður. Pála er pikkuð upp og svo fundið bifvélaverkstæði númer 3. Sjúkdómslýsing mín: Bíllinnminnskopparútogsuðureittdekkiðerfastogþettakemurogfersvoþegarégdrepáhonumenkemuraftureftirþrjátíukílómetraaksturogþettaerþriðjaverkstæðiðsemégstoppaáenafþvíaðégerkonaerégnáttúrulegabaraafskrifuðsemmóðursjúkhikkssst. Ástand mitt: Algerlega móðursjúk, hárið í óreiðu og geðveikisglampi í augunum. Viðbrögð bifvélavirkja: Múhahaha. Greining bifvélavirkja: Það er brotinn öxuleitthvað. Niðurstaða: Bíll kyrrsettur á Selfossi fram á föstudag meðan skipt er um þetta öxuleitthvað. Kostnaður: liggur ekki fyrir en verður örugglega mikill.

Kl. 18:00: Leigður bílaleigubíll á Selfossi. Gallar: Er af tegundinni Fiat Panda, á stærð við hjólastól, hæggengari en Flintstone bíllinn og valtari en rúlluskautar. Veður: Ca 20 metrar á sekúndu og öskrandi rigning. Hámarkshraði bíls: Kemst í 80 undan vindi. Ástand rúðuþurrka: Afar lélegt. Kostnaður: 11000 + ?

Kl: 22:00. Hjólastóllinn rennir í hlaðið á Syðri-Steinsmýri.

Kl: 22:30. Tekið úr þvottavél. Sjúkdómsgreining: Hvíti þvotturinn er bleikur. Orðsök: Appelsínugulur laumufarþegi. Niðurstaða: Lífið er fjandans tík og síðan drepst maður bara........

3 Comments:

At 4:45 PM, Anonymous Anonymous said...

úff úff úff..... úffff..... góður dagur!
Vonandi kemstu samt að hitta okkur milli jóla og nýárs...
Gleðileg jól og hafðu það gott :)

 
At 4:47 AM, Anonymous Anonymous said...

Gleðileg jól tengdafrænka :)

 
At 1:11 PM, Blogger Syneta said...

Var að lesa þessa færslu aftur og hún er alveg jafnfyndin og hún hefur verið undanfarið þannig að ég ákvað að kommenta:) ... þú mátt líka endilega blogga meira, notar bara word og skellir þessu á netið þegar tækifæri gefst:)

 

Post a Comment

<< Home