Wednesday, March 08, 2006

Þorrablót og fleira

Ég biðst innilega afsökunar á langri þögn undanfarið. Ástæðan er sú að það hefur bara verið svo óskaplega mikið að gera í skólanum að ég hef bara ekki haft tíma til að skrifa. Það tekur nefnilega sinn tíma að blogga þegar maður þarf að fara með tölvuna á kaffihús til að komast í netsamband. Og síðan að ná borði nálægt innstungu, eða bara borði yfir höfuð. En núna er I-house kaffið næstum því mannlaust þar sem yfir stendur tælenskt coffee hour í byggingunni sem fækkar samkeppnisaðilum mínum um borðin verulega.

Það er fyrst að frétta frá mér að gervineglurnar eru farnar. Fyrir ca viku síðan tóku þær upp á því að fljúga sjálfviljugar í braut frá fingrum mínum. Flugu bara í burtu, ein af annarri.... Og stundum við furðulegasta tækifæri, svo sem við kvöldmatarát. Ég vona bara að enginn hafi borðað einhverja þeirra með kvöldmatnum.... En ég hef komist að þeirri niðurstöðu að gervineglur þeirra Bandaríkjamanna séu af hinu svokallaða stökkafbrigði. Og mig grunar að þær hafi kannski birst aftur á snyrtistofunni....

Það er mikið álag í náminu um þessar mundir sem útskýrir kannski hinar löngu þagnir á þessari síðu. Auk þess að vera í þremur nokkuð krefjandi áföngum er ég að undirbúa fyrirlestur fyrir stóru Western-folklore Society ráðstefnuna í apríl, hann verður um ævintýri (AT 451, svona fyrir ykkur þjóðfræðingana) og Bengt Holbek kenninguna. Auk þessa samþykkti ég víst að kenna einn tíma hér í Scandinavíudeildinni, áfanginn er um Njálu og ég á semsagt að fara ofan í saumana á þjóðfræðilegu gildi Njálu. Svo að nú er ég að lesa mér til um allt sem lýtur að Njáluþjóðfræði. Þau vilja víst fá að vita hversu mikið er satt í henni.......huhm, erfitt að áætla. En ég er viss um að mér leggst eitthvað til.

Annars er ég að vinna að því að koma mér upp íðorðalista fyrir póst módernískuna hans Briggs. Og ætla að reyna að gera það að reglu að birta þrjú orð í hverju bloggi og óska eftir tillögum að íslenskri þýðingu. Orð bloggsins að þessu sinni eru þessi:

1. Vernacular
2. Commodification
3. Governmentality

Og getið þið nú.


Annars gerði ég einkum tvennt mér til ánægju og yndisauka frá því að ég bloggaði síðast fyrir tæpum hálfum mánuði (er virkilega svona langt síðan ég bloggaði síðast?). Þarsíðasta laugardag ákvað ég að láta eftir mér heilan frídag og skrapp með Astrit (frönsk) í verslunarleiðangur til San Fransisco. Þar sem við ætluðum einnig að nota ferðina til þess að skoða næturlífið, ákváðum við að leigja okkur hótelherbergi og gista um nóttina. Við fundum herbergi fyrir 50 dollara, herbergið var bara nokkuð hreint og við sáum bara einn kakkalakka. Sem var nokkuð gott því að í fyrsta herberginu sem við skoðuðum á hótelinu voru þeir skríðandi upp um alla veggi (ojj). En um kvöldið mættu Torbein (þýskur), Burhaim (tyrkneskur) og Jeimi (costa ríkastur) á svæðið of við fórum í einhvern þann leiðinlegasta næturklúbb sem ég hef nokkurntíma komið í. Ójá, átti víst að vera svakalega fínn og flottur, en dansgólfið var hrein hörmung, tónlistin mjög einhæf og leiðinleg, það voru engin sæti og skrítið fólk gangandi um með nefið upp í loftið. Ég mun sko áreiðanlega ekki fara aftur í þennan klúbb.

Síðasta laugardag var síðan þorrablót Íslendinga á Flóasvæðinu, og að sjálfsögðu mætti ég ásamt L.H.F.Í.Í.B. (Leynifélagi hinna földu Íslendina í Berkeley). Þetta þorrablót var haldið í Suður-San Fransisco í einhverjum veislusal. Mætingin var bara nokkuð góð, ca 150 manns, stór hluti þeirra reyndar 2. eða 3. kynslóðar Ameríku-Íslendingar. Mér hafði hlakkað mikið til að fá loksins súrmat, en því miður hafði sá ágæti matur ekki fengið náð fyrir augum Amerískra tollayfirvalda. Súrmaturinn var semsagt fastur í tollinum, aðeins fiskurinn og sviðasultan sluppu í gegn en ekki kjötréttirnir. Sviðasultan gengur hér undir heitinu Head cheese, eða hausaostur, og mun það hafa slegið ryki í augun á Ameríska tollinum. Svo að við borðuðum nýskjálenskt lamb á íslensku þorrablóti og gerðum það ekki ógrátandi.....En hljómsveitin var bara nokkuð góð miðað við að samanstanda af tveimur miðaldra Íslendingum með skemmtara.

1 Comments:

At 3:54 AM, Anonymous Anonymous said...

Vernacular: Eina sem mér dettur í hug á íslensku er svæðisbundinn/hópbundinn. Þ.e. e-ð sem tilheyrir ákveðnum hópi eða svæði. Svæðis/hópbundin hversdagsmenning? En mér finnst það samt ekki ná nógu vel yfir merkingu orðsins. Þetta er svona eins og að reyna að þýða orðið hundslappadrífa yfir á ensku.. eina sem manni dettur í hug er snow.. eða kannski wet snow :p

Commodification: Söluvæðing? Þ.e. að gera e-ð að einskærri söluvöru.

Governmentality: Jahh, getur slegið þessu upp í ríkisstjórnunargreind eða stjórnunargreind. Ég held að orðið "stjórnsemi" sé samt ekki fjarri lagi, og vel viðeigandi þýðing. Kannski heldur skoðanalituð þýðing þó. Get líka vel hugsað mér að þýðing á þessu orði fari eftir samhengi.. eða er þetta ekki annars eitthvað hugtak sem verið er að nota? Er þetta hugtak um ríkisstjórnunarlegt hugarfar? Semsagt, blanda af orðunum government og mentality? Eða er merkingin bara govern og mentality?

 

Post a Comment

<< Home