Monday, February 20, 2006

Augnahárajaplarar, Baumann, fosetinn....

Ég biðst fyrirfram afsökunar á ásláttarvillum í þessu bloggi, ástæðan er sú að ég fékk mér spánýjar gervineglur í síðustu viku sem torveldar mjög alla tölvuvinnu. Svo ekki sé talað um öll hin vandamálin. Eins og til dæmis það að klæða sig úr gallabuxum með olbogunum......Ég held annars að ég gefist upp og láti fjarlægja þær mjög fljótlega...

Annars er frídagur þennan mánudag hér í USA, ástæðan er sú að í dag er víst forsetadagurinn eða eitthvað svoleiðis.... Bandaríkjamenn eru annars ansi frídagaglaðir og ég held bara að það hafi verið frídagur í hverjum einasta mánuði síðan ég kom hingað. Annars skiptir þetta mig litlu máli þar sem ég hef enga tíma á mánudögum. Fattaði ekki að það væri helgidagur/frídagur fyrr en ég sá að mötuneytið var lokað, enda búin að eyða öllum deginum á bókasafninu hér á I-house með sveittan skallan.

Annars var síðasta vika mjög athyglisverð, Baumann var með fyrirlestur hér í Berkeleyborg og tók síðan að sér að vera gestakennari fyrir okkur nemendurnar í folklore 250b. Fannst hann bara mjög skemmtilegur og í fyrsta skipti alla önnina fékk ég á tilfinninguna að ég væri að heyra eitthvað um þjóðfræði í áfanganum..... Skemmtileg tilfinning. Vandamálið við áfangan er nefnilega það að hann er eiginlega bara um mannfræðikenningar um alþjóðavæðingu og aðlöðuð menningarform (held ég, annars er ég ekki alveg viss um að þýða alltaf allt rétt í þessum áfanga enda mikið um póst módernýrsku), sem er gott og blessað, en þar sem þetta eru allt saman bara heimspekilegar pælingar og engin gögn er ekki alltaf gott að átta sig á tengingunni yfir í þjóðfræði. En nóg um nöldur, ég er viss um að þegar upp er staðið mun þessi áfangi verða notadrjúgur, a.m.k. fyrir enskukunnáttu mína......

Fátt var sér til gamans gert í síðustu viku, utan föstudagsins og föstudagskvöldsins. Eftir tíman hjá Baumann skruppum við á barinn með honum og fengum okkur örlítið af hinum ramma drykk sem hér í landi er víst kallaður bjór og bragðast svolítið eins og pilsner með matarsóda. Var bara nokkuð hress þegar ég kom heim um sjöleytið og átti þá fyrir höndum þemapartý sem hæðin mín stóð fyrir hér í húsinu. Þemað var filthy/gorgeous þar sem hæðin samanstendur að kvenfólki eingöngu. Ég ákvað að mæta sem sambland af báðum þemunum, mætti með fölsk augnahár, í svörtum blúndurtopp, stígvélum og í pilsi sem var það styðsta sem ég hef farið í í meira en 10 ár.... Það var eiginlega fjarverandi, svo stutt var það. Ég ætlaði eiginlega að gera út á filthy en held að ég hafi kannski heldur verið of gorgeous, því að þegar ég kom frá því að afgreiða á barnum var ég króguð af út í horni af handjárnuðum Grikkja sem gerði sér lítið fyrir og át næstum því önnur fölsku augnhárin mín. Ég held jafnvel að hann hafi ætlað að reyna að kyssa mig en bara hitt svona illa..... Erfitt að ná miði þegar maður er með hendurnar handjárnaðar fyrir aftan bak, býst ég við. Ég ætlaði eiginlega að forða mér í hvelli en áttaði mig þá á því að ég var föst í gólfviftunni... hún hafði semsagt gómað horn af sjalinu mínu..... hálf súrealískt allt saman. Til allrar hamingju tókst mér að koma vandamáli mínu til skila með ópum og öskrum til
Grikkjans handjárnaða sem snarasta hætti að japla á augnhárum mínum fölskum og sneri sér þess í stað að því að losa mig úr viftunni....sem gekk hægt vegna handjárna.... En ég losnaði þó á endanum. Og ætla sko aldrei að standa aftur í hornum í svona stuttu pilsi. Allavega ekki þar sem eru gólfviftur og Grikkir....

2 Comments:

At 1:55 PM, Blogger SewPolkaDot said...

Ég hló upphátt í vinnunni þegar ég las þetta með augnhárin og viftuna...

 
At 2:14 AM, Blogger Helga said...

eg se thetta alveg i anda! eins og sena ur Quentin Tarantino mynd!!!

 

Post a Comment

<< Home