Thursday, April 06, 2006

Vorfrí og ferðalag

Komið þið heil og sæl eftir langa pásu. Ástæðan fyrir langri þögn að þessu sinni var vorfrí sem ég ákvað að nota til að skoða nánar þetta skrítna land sem ég er stödd í. Ég fór semsagt til Death Valley, Las Vegas og Los Angeles í síðustu viku. Sem að sjálfsögðu gerði það að verkum að ég sat með sveittan skallan við að klára verkefni fyrir og eftir ferð. Sem gerði það að verkum að það var bara enginn tími fyrir hvítvín. En núna stendur þetta til bóta, það er komið hvítvínsglas við hlið mér og lærdómi dagsins lokið.

Ferðin var hin skemmtilegasta, þetta var svona Telmu og Louise ferð, þar sem minn eini ferðafélagi var Astrid (frönsk). Ferðin byrjaði ekki efnilega þar sem við villtumst á leiðinni í Death Valley; það var gat á vegakortinu okkar og að sjálfsögðu keyrðum við beint inn í gatið. Svo að við töfðumst dágóða stund meðan við keyrðum gegnum einhverskonar sveitasvæði með vegaskiltum sem voru hvergi að finna á kortinu..... og þurftum að stoppa hrúgu af fólki áður en við fundum einn sem vissi hvar þjóðvegur 90 væri að finna. En þetta fór allt saman vel, við náðum að komast í Death Valley morgunin eftir að við lögðum af stað, eftir að hafa dvalið nótt í bæ einum í útjaðri svæðisins.

Það sem mér fannst athyglisverðast við Death Valley var sú staðreynd að það rigndi þegar við vorum þar. Þetta var mjög sérstakur fyrirburður, þar sem dalurinn ku víst vera sá þurrasti hér á jörð, með aðeins tvær tommur í árs úrkomu. Sennilega hef ég tekið með mér rigninaský frá Íslandi þegar ég kom hingað út, því að mér er sagt að þessi vetur hafi verið sá blautasti í manna minnum hér í Berkeley. Í heild fannst mér dalurinn vera svolítið eins og Skeiðarársandur, nema bara brúnn í staðin fyrir svartur. En ég held að ég hafi bara aldrei séð annan eins saltbing og í Death Valley. Ég fékk hreinlega heimþrá sökum þess hversu mikið saltið minnti mig á snjó. Þrátt fyrir þá staðreynd að fá kvikindi þrífast á þessum slóðum tókst mér að næla mér í kóngulóarbit, en til allrar lukku sá ég kvikindið ekki í eigin persónu heldur aðeins ummerkin sem var í formi stórs hringlaga sárs á fótleggnum. Sem Astrid lét mig þurrka með sígarettu þar sem það hafði reynst henni vel á fyrri ferðalögum um fræg kóngulóarsvæði í Asíu. Og það virkaði bara vel, a.m.k. er ég ennþá lifandi.....

Við gistum síðan eina nótt í eyðimerkurþorpinu Shoshone, sem hafði á að skipa einu móteli, bensínstöð, byggðarsafni, saloon og okkur til mikillar undrunar: frönsku internetkaffi. Íbúarfjöldinn var sennilega í kringum 40 manns en staðurinn var engu að síður stórskemmtilegur og afar fornaldarlegur ef undan er skilið internetkaffið. Við borðuðum í Salooninu um kvöldið, þetta var svona alvöru saloon með vélhjólatöffara við eldavélina og skröltorm á matseðlinum. Ég var að spá í að prófa skröltorminn en eftir að hafa séð kokkinn minntist ég þess að sjúkratrygginarskirtenið mitt hafði orðið eftir heima í Berkeley. Svo að ég ákvað að fá mér bara nautasteik í staðin. Sem bragðaðist mjög undarlega, líkt og egg kjúklingurinn sem Astrid fékk sér. Svo að máltíðinni voru gerð heldur lítil skil þrátt fyrir góðan vilja. Morguninn eftir ákváðum við að prófa franska internetkaffið, sem reyndist vera hörku gott og bauð upp á crepes og alvöru kaffi. Eigandinn var reyndar eini starfsmaðurinn, sá hafði stofnað staðinn ásamt franskri unnustu sem síðar yfirgaf hann sökum almennra leiðinda í þessu einmannalega þorpi.

Úttópíu borgin Las Vegas var næsti viðkomustaður á okkar leið. Við dvöldum aðeins í einn dag í þessari gervilegu borg, enda stendur fátt til boða þar nema fjárhættuspil og drykkja. Svo að það var alveg nóg fyrir okkur að sjá Strippið (aðalgata borgarinnar) einu sinni. Ég kom við í þremur víðáttustórum spilavítum, ákvað að prófa heppnina í einu og spilaði texas holstum í ca 5 mínútur. Það er nefnilega tíminn sem það tekur að tapa fyrir atvinnumönnunum ef maður er ekki tilbúin til að spila fyrir stórar upphæðir og er undir áhrifum áfengis..... En það var gaman að prófa að spila alvöru póker enda þótt að stutt væri.

Los Angeles reyndist vera almennileg stórborg. Við eyddum þremur dögum þar, að mestu á ströndinni. Því miður náði ég ekki í neina sólbrúnku þar sem það var skýjað mest allan tíman. En ég skoðaði Hollywood og Bevely hills, Hollywood bulivard reyndist nokkur vondbrigði; ekki þverfótað fyrir túristum. En það eftirminnilegasta frá Beverly hills var sennilega það að sjá Luke Perry veifandi á gangstéttinni (sennilega samt ekki að veifa okkur þar sem við keyrðum framhjá). Það var einhvað kómískt við þetta því hvað getur verið meira Beverly hills en Luke Perry veifandi fyrir utan kaffihús?

5 Comments:

At 4:37 AM, Blogger Syneta said...

Vinkuðu þið ekki Luke Perry? kannski var hann að vinka ykkur?;) ég myndi segja söguna þannig!;)

 
At 4:37 AM, Blogger Syneta said...

Vinkuðu þið ekki Luke Perry? kannski var hann að vinka ykkur?;) ég myndi segja söguna þannig!;)

 
At 6:15 AM, Anonymous Anonymous said...

Gleðilegt sumar og takk fyrir skemmtileg blogg í vetur :)

 
At 11:42 AM, Blogger theddag said...

Hæ Júlla. Helga, Bryndís og Guðrún voru í heimsókn hjá mér í gær. Það var ákveðið að þegar Helga kemur heim í júlí að gera aðra svo Kirkjubæjarklaustursferð - hvað finnst þér :)

 
At 6:03 AM, Blogger SewPolkaDot said...

Hæhæ, skemmtileg ferðasaga :)
Og gleðilegt sumar...

 

Post a Comment

<< Home