Saturday, July 14, 2007

Ég mundi aðgangsorðið inn á bloggsíðuna!

Eftir að hafa tekið samviskusamlega nýfundnar minnistöflur mínar síðustu daga hefur mér tekist að rifja upp aðgangsorð mitt að þessari bloggsíðu. Að því tilefni ákvað ég að láta ljós mitt skína á ný og láta þessa síðu ganga í endurnýjaða lífdaga. Minnistöflurnar góðu fann ég reyndar fyrir tilviljun í lyfjaskúffu minni fyrir hálfum mánuði, þær hafði ég víst keypt fyrir síðustu jólapróf en alveg steingleymt að taka þær......En árangurinn lét ekki á sér standa að þessu sinni, þetta eru fosfórtöflur og nú geng ég um eins og sjálflýsandi kyndill í myrkrinu og man alveg hreint ótrúlegustu hluti. Sem dæmi um hið snarbætta minni mitt má nefna að ég hef ekki gleymt bílnum mínum neinstaðar í meira en hálfan mánuð og man skyndilega nöfnin á öllum kærustum minna fimm systra, líka þeim nýjustu, seiseijá......

Annars er ég á Klaustri þessa dagana í ,,sumarfríi/vettvangsferð'', mætti austur með heila ferðatösku af gögnum til að greina. Áður en ég vissi af var þó búið að snara mig í vinnu við neyðarreddingar í ferðaþjónustugeiranum, bæði hér á Klaustri en einnig á Hornafirði eins furðulega og það hljómar nú. Í þessum geira ríkir nú hálfgert neyðarástand á landsbyggðinni sökum þess hversu lítið er orðið eftir af ungu fólki í byggðarlögunum til að vinna þessi störf. Hér er engin atvinna á ársgrunni sem þýðir að ekkert starfsfólk er í boði þessa þrjá mánuði ársins sem allt fer á hvolf vegna túrista. En að sjálfsögðu verð ég að hætta að vera svona meirlind og læra að segja nei, ég má eiginlega ekkert vera að því að standa í svona reddingum...

Já, ég er sko þreytt og það verður gott að komast aftur í bæinn og hvíla sig ærlega eftir sumarfríið......

0 Comments:

Post a Comment

<< Home