Tuesday, January 09, 2007

Nú er frost á fróni

Ég held að nýji internet explorerinn minn, sem microsoft hlóð niður á mig bakdyrameginn og algerlega án míns samþykkis meðan ég var að berjast við að laga vírusvörninga mína, flokki bloggsíðuna mína sem annað hvort klám eða ríkisleyndarmál. Allavega harðneitar hann mér um að sjá mína eigin síðu og innskráningarsíðuna hjá blogger.com. Þetta kallar náttúrulega á símahjálp frá tölvugúrú fjölskyldu minnar, hana Ellu systir, sem væntanlega hefur kippt þessu í liðinn ef þið eru að lesa þetta.

Annars er fátt að frétta úr sveitinni, hér gerist náttúrulega aldrei neitt sem segja má frá.......

En til að fylgja eftir bíladramanu mikla frá því fyrir jól, þá er bíllinn núna kominn í þokkalegt stand, það var svo mikið sem öxulliður og hjólalega sem brotið var, eða svo segir að minnsta kosti á reikningunum himinháa. Sennilega hefði verið best að henda bara bílnum og kaupa nýjan og næst þegar hann bilar á skynsamlegum stað og tíma mun það alveg örugglega gerast. Annars er ekkert annað að gera núna en að keyra þann gamla út svona til að fá upp í viðgerðina........Nema ég náttúrulega strauji fleiri blindhæðarskilti með hliðarspeglunum í millitíðinni eða fari í óvænta flugferð á honum út í Skaftáreldahraunið, hver veit?

Annars er svo mikill brunagaddur þessa daganna hér fyrir austan að allt er freðið, bílar, hús og fólk. Þannig hef ég þurft að brjótast inn í bílinn minn með aðstoð hárþurrku síðustu daga og stutt stopp á verkstæðinu í dag leiddi í ljós að það sem ég hélt að væri kannski fleiri brotnir öxulliðir var í rauninni bara beinfrosinn dempari (ok, smá móðursýkiskast). Og einhvernmeginn smígur kuldinn inn í húsið líka (útidyrahurðin var frosin aftur í morgun) svo að maður er hreinlega krókloppinn og með sultartár í nefinu allan daginn. Ég er ekki frá því að heilinn sé svolítið freðin líka, það er alla vega búið að taka mig marga daga að berja saman nýrri kaflaskiptingu, skipulagi og beinagrind fyrir MA ritgerðina mína. Ef hraði minn við ritgerðina sjálfa verður með þessu móti mun henni ljúka einhverntíma síðla árs 2010.....Já, illt er að vera karlmannslaus í kulda og trekk og geta ekki einu sinni iljað á sér tærnar á hundum........En það góða við þetta allt saman er nú það að ég er skyndilega næstum hætt að reykja, enda allt of kalt til að fara út í smók.

Eftir næstu helgi ætla ég að leggja veg undir dekk og flýja kulda, karlmanns og hundaleysi sveitarinnar. Ég kem semsagt til Reykjavíkur á mánudaginn næsta (þann 15. jan) og ætla verða þar til föstudags við ýmislegt grúsk og heimildaleit í Árnastofnun. Nema náttúrulega á kvöldin, sem verða frátekin fyrir félagslíf af ýmsu tagi, þ.e. ef áhugi fyrir slíku reynist vera fyrir hendi meðal malbiksvina vorrar........