Wednesday, September 28, 2005

Bíóferð, fyrirlestur og fleira

Jæja, ég er enn á lífi þrátt fyrir erfiði síðustu viku og kominn tími til að blogga á kaffinu með aðstoð hvítvínsglassins góða. Síðasta vika var bara erfið í skólanum, þurfti að undirbúa fyrirlestur um bók og lesa þessi lifandis ósköp í öðrum kúrsum.

Fyrirlesturinn var hálfgert hópverkefni og var nokkuð sögulegur. Ég hljóp um á náttfötunum eins og brjálæðingur í ca 5 daga í síðustu viku meðan ég var að reyna að þýða blessaða bókina og koma henni á skiljanlegt tungumál. Átti að dekka fyrri helming bókarinnar og strákurinn sem tók hana á móti mér seinni. Á sunnudaginn hittumst við síðan og ætluðum að ræða bókina og koma fyrirlestrinum saman. Það fyrsta sem drengur spurði um þegar við hittumst var: Átti ég ekki annars að taka fyrri helming bókarinnar? Vá hvað ég fölnaði.....við höfðum semsagt bæði glósað fyrri helminginn. Síðan þegar við tókum að ræða málið kom í ljós að drengurinn hafði tekið til lesningar ranga bók í þokkabót.......eftir allt annan finnskan fræðimann....Svo að hann skellti sér heim að lesa og viti menn, um kvöldið komu síðan glósur úr seinni hlutanum. Vá, og það tók mig heila 5 daga að fá botn í fyrrihlutan.....

Fyrirlesturinn var í gær og gekk hreint ekki svo vel. Þegar maður talar málið ekki 100% er alveg hræðilegt að halda fyrirlestur þar sem maður er stoppaður í miðjum klíðrum með spurningum. Þetta er það sem mér finnst erfiðast hér í Berkeley, tungumálið veldur því að ég get aldrei komið heilli fullmótaðri hugsun til skila þannig að aðrir skilji hana. Skildi ekki alveg allar spurningarnar og það sem verra var, strákurinn sem var með í fyrirlestrinum þurfti að fara áður en tíminn var búinn. Fyrirlesturinn átti að standa í ca 30 mínútur en stóð þess í stað yfir í 2 klukkutíma vegna umræðna um bókina. Komumst að þeirri niðurstöðu að bókinn væri fræðilega séð hálfgerður geðklofi og ég held að ég hafi bara ekki verið svo slæm í umræðunum eftir að félaginn fór(sem betur fer hafði ég lesið seinni hlutan líka).

Ég var hálfgert flak þegar ég kom heim í I-house eftir fyrirlesturinn. Hitti Scott, breskan kunningja minn í kvöldmatnum, sem var hræðilegur að vanda(það er að segja kvöldmaturinn en ekki Scott). Þar sem hann er nú engin nýgræðingur á fyrirlestrarsviðinu (hann er post doc í geimvísindum eitthvað), kunni hann að sjálfsögðu ráð við eftirfyrirlestrarstreitu, en það var að hrynja inn á næsta bar strax eftir fyrirlesturinn og drekka það sem eftir lifði dags. Mér fannst þetta breska ráð nokkur gott, fór ekki á næsta bar en fékk mér nokkra góða romm og kók heima í staðinn..... Og varð sko alveg slök...Skítt með fyrirlesturinn.....Gengur bara betur næst.

Eftir að ég hafði hesthúsað rommið góða fór ég í bíó með Caroline (Ír) og Lauru (Gb) og sá Líkbrúðina (The corpse bride). Mjög fyndin og skemmtileg mynd. Sérstaklega eftir romm og kók.....Bíóið var bara nokkuð flott allt í teppum og tjulli og sætin alveg hreint æðislega mjúk. En kannski var það samt bara rommið.......Þegar við fórum gat Caroline (sem er að læra drama performance), ekki stillt sig um að snerta risastórt auglýsingaskilti um myndina, með þeim afleiðingum að önnur festingin á því bilaði og það hálf hrundi yfir okkur....ákváðum að láta okkur hverfa í hvelli, áður en Caroline jafnaði bíóið við jörðu.......og hrundum inn á nálægan Írskan bar. Þessi bar var afar athyglisverður, það voru blöð og pennar á borðunum og einhver náungi að lesa spurningar allan tíman sem borðin áttu að svara....hálfgerður trivial persuit bar....finnst við ættum að hafa einn svona heima á klakanum....mun betra en bingó.

Skemmtileg þróun átti sér stað í Folklore 250 í dag, Miðvikudag. Í fyrsta skipti síðan ég byrjaði að sitja áfangan skildi ég hvað kennarinn var að tala um allan tímann(Sem er afar langur, þar sem kennarinn bætti klukkutíma við kennslutímann og hættir aldrei fyrr en hann er bókstaflega rekinn út af fólki sem bíður eftir stofunni. Einu sinni stóð kennslustundin í 3 kl. og 45 mín , já, frá kl 15-18:45, þar sem enginn rak okkur út úr stofunni. Stemmingin í kennslustofunni varð eins og í Phonebooth og Liberty stands still þar sem við vissum að við yrðum sennilega skotin ef við færum....og síðan kláraðist súrefnið....). Sorry hvað sviginn varð langur....en aftur að miðvikudeginum. Í ljós kom að Mike, breskur þjóðfræðinemi, hafði farið á fund kennarans og tilkynnt honum að það væru 4 erlendir nemar í áfanganum og ekkert okkar væri að skilja rassgat í því sem hann væri að segja. Kennarinn tók þetta til greina og stakk upp á því að Mike sæi um að dekka einn að textum dagsins í sinn stað....eins gott að ég kvartaði ekki.......svona á að takast á við kvartanir......Mike sá um að matreiða ofan í okkur textann en eitthvað hlýtur að hafa síast inn hjá kennaranum því hann var ekki alveg eins póst módernískur og venjulega...sem gerði hann bara nokkuð skiljanlegan......

Heimilislausi maður dagsins er skoskur að þessu sinni. Hitti hann á leiðinni í bíóið. Hann var allur út ataður í málingu og var að sníkja eld af okkur. Vildi ekki segja okkur hvernig hann endaði hér í Berkeley. Kvaddi okkur síðan með þessum orðum: jehb, youhb giiirls get fuuucking goooing to the friiiiking moooivee......

Thursday, September 22, 2005

Íslensk útilegustemming, símadóni og fleira

Jæja, enn og aftur sit ég á kaffinu góða og blogga innan um drukkið fólk af mörgum þjóðernum. Þessa dagana er íslensk útilegustemming ríkjandi fyrir utan kaffið, menn spila á kassagítara og syngja gamla slagara. Og þá er nú gott að hafa lopapeysuna góðu sem Fjóla prjónaði á mig áður en ég yfirgaf Klakan. Annars er farið að hægjast á drykkjunni hér í I-house, allir orðnir bissý við námið.

Aðfaranótt mánudags lét símadóni til skara skríða hér í I-house, hann hringdi í mig klukkan hálf fimm um nóttina og vildi endilega vita hvað ég hét og hvaðan ég væri. Ég skellti á kauða sem síðan hringdi í flest öll önnur herbergi á hæðinni við lítinn fögnuð íbúanna. Þessi kauði er frægur hér í Berkeley, og gengur undir nafninu Skómaðurinn vegna þess að hann vill víst alltaf vita hvernig skó viðkomandi kona á. En í mínu tilfelli stóð samtalið nú ekki nógu lengi til að umræður færu að snúast um skóeign mína. (ímyndið ykkur samtalið: ég á tvö pör svarta tásandala, eina brúna leðursandala með hæl, tvenna svarta háhælaða skó, aðrir eru Mary Jane´s, hvíta strigaskó, ljósbrúna ilskó.......Vá, gaurinn hefði sko farið á hausinn). En ég lét vita af hringingunni niðri í lobby og þurfti fyrir rest að gefa lögregluskýrslu um atburðinn....löggan er víst að safna upplýsingum um gaurinn og því þarf að gera skýrslu um hvert atvik....og hann hefur verið að í 10 ár.....það eru margar lögregluskýrslur......En það versta við símtalið var það að 40 mínútum eftir það, þegar ég var alveg að sofna aftur, heyrði ég svakalegan hávaða fyrir utan herbergið mitt. Ég safnaði kjarki í ca 10 mínútur og fór svo að gá, og viti menn, hvíta skilaboðataflan mín sem venjulega hengur á veggnum fyrir utan herbergið mitt, lá að þessu sinni á gólfinu. Ég átti hálft í hvoru von á nastí skilaboðum á henni eins og t.d. I´m standin behind you, en það var þó ekki svo slæmt. En krípí var það.

Ég hef hingað til látið það vera að kommenta á ástarlíf íbúanna í I-house, en kannski er kominn tími til að gera bragabót þar á. Megineinkenni ástarlífsins eru þessi; a) Gagnkynhneigðir karlmenn eru í yfirgnæfandi meirihluta íbúa og allir á veiðum. b) Flestir eru í tveggja manna herbergjum. c) Sumir eru að safna þjóðernum, þ.e. að reyna að sigra heiminn með því að sofa hjá sem flestum þjóðernum(hér býr sko fólk af ca 50 mismunandi þjóðernum, og ég hef þetta með söfnunina eftir kunningja mínum sem er að safna og er bara kominn með allnokkur lönd).

Þetta gerir það að verkum að það að vera kona frá landi sem aðeins hefur 300 þúsund íbúa og býr auk þess í eins manns herbergi virðist vera afar spennandi kostur fyrir veiðimennina. Og það er mjög skrítið að fá alla þessa athygli frá öllum þessum fjaska fallegu ungu mönnum. Æ, ef ég væri nú bara 25 ára aftur....en þeir hljóta þó að gefast upp fljótlega......en gaman að fá alla þessa athygli.......best að daðra pínulítið og sjá hversu lengi þeir reyna....

Ég verð að brjóta hefðina og enda þetta án sögu af heimilislausum. Ég hef bara lært síðustu daga og ekki farið steinsnar út fyrir hússins dyr nema bara í skólann og ekki hitt einn einasta heimilislausan. Sem er kannski bara gott...en kannski er ég bara hætt að taka eftir þeim...

Friday, September 16, 2005

Tungumálaörðuleikar, dansandi Aztekar og fleira

Jæja, þá er nú fjórða vikan mín hér í Berkeley að enda og komin tími til að skrifa skýrslu síðustu daga. Námið gengur bara nokkuð vel enn sem komið er þrátt fyrir að ég skilji ekki ennþá neitt sem kennarinn segir í folklore 250. Annars er þessi áfangi allur um það hvernig tungumál hinnar ráðandi vísindahugsunar var fundið upp af evrópskri karlaelítu 18. og 19. aldar. Þessi staðlar evrópuelítunar varð síðan ráðandi sem viðmið um allan heim með neikvæðum afleiðingum fyrir konur, ómenntaða, fátæka og fleiri. Ég er að lesa bók eftir kennara áfangans þessa dagana og komst að því að maðurinn hreinlega talar alveg eins og hann skrifar. Hér kemur týpísk setning úr bókinni, íslensk þýðing óskast:

When applied to epistemological constructions or to a cultural forms more generally, of course, hybridity is a metaphor, which carries with it from taxonomic biology the notion that the hybrid ,,offspring,, is a heterogeneous mixture of relevant constituent elements contributed by the homogeneous (pure) ,,parent,, form.

Jabb, svo mörg voru þau orð. Ég get ekki að því gert, en mér finnst svolítið eins og ég sé að lesa texta dauðu, hvítu karlmannaelítunnar gegnum augu nýrrar, póst módernískrar elítu..... þ.e. á tungumáli sem er alveg jafnóskiljanlegt þorra fólks og textar hinna hljóta að hafa verið á sínum tíma. Svo að þessi áfangi er í dálítilli mótsögn við sjálfan sig og tilgang sinn þótt hann sé mjög áhugaverður að mörgu leiti.

Maturinn hérna á I-house er gjörsamlega að gera útaf við mig. Já, þið sem spáðuð því að ég kæmi feit til baka getið sko bara étið það ofan í ykkur strax, ég hef hreinlega hríðhorast síðasta mánuðinn. Maturinn sem ég illu heilli neyddist til að kaupa með húsnæðinu er ekki aðeins vondur heldur líka afar sundurlaus. Aldrei hægt að fá alveg heilstæða máltíð. Ef það er steik og kartöflur er venjulega engin sósa. Næsta dag er síðan brún sósa en ekkert til að nota hana á...Ég hef kenningu um það af hverju þetta stafar: Kokkarnir draga miða upp úr hatti sem ræður því hvað verður á hlaðborðinu þann daginn, og því lítur týpisk máltíð svona út; fiskur, pasta, brún sósa, kartöflumús og skelfiskbollur...... ég meina, hvernig raðar maður þessu saman...? Annars er I-house fullt af einhverjum alþjóðlegum uppákomum, í kvöld borðaði ég tildæmis vondan mat við dúndrandi trumbuslátt meðan ég horfði á Aztekahóp dansa kringum logandi eld......Tilkomumikil sjón.

Ég frétti af öðrum Íslendingi á þessum slóðum um daginn. Sú heitir víst Rún og bjó hér í fyrra. Bilal, pakistanskur kunningi minn hér bjó í næsta herbergi við hana í fyrra og er enn í sambandi við hana. Hann er að vinna í því að leiða okkur saman, ég vona að það takist hjá honum því það væri nú gaman að hitta einhvern Íslending fljótlega....Annars hef ég hitt hrúgu af íslenskumælandi fólki hér, fór í partý hjá Scandinavíudeildinni síðasta laugadag og komst að því mér til mikillar undrunar að annarhver starfsmaður deildarinnar talar íslensku. Ég gekk við þetta tækifæri í Sagaklúbb deildarinnar, en meðlimir klúbbsins ku hittast einu sinni í mánuði til að lesa og þýða íslensk fornrit yfir á ensku. Og svo er náttúrulega drukkið þessi lifandis ósköp...En þetta er víst mikil skemmtun þar sem þýðingarnar eru víst stundum dálítið bókstaflegar, einn prófersorinn þýðir víst forskeytið all- sem totally. Menn Þogríms voru allbúnir til bardaga er því í enskri þýðingu; Þorgríms men were totally ready for a combat......

Eins og alltaf ætla ég að ljúka spjallinu á sögu af heimilislausa fólkinu hér í Berkeley. Í þessu tilfelli er ég þó ekki alveg viss um að maðurinn hafi verið heimilislaus, en hann leit þó að minnsta kosti út fyrir að vera það... Ég hitti þennan mann á gangi á Telegraph, hann var síðskeggjaður og hrikalega óhreinn að spá í tarrot spil fyrir vegfarendum. Ég skellti mér á lestur hjá honum þrátt fyrir að mér þætti þetta soldið skrítin spákona.....Og viti menn hann var bara nokkuð góður, ekkert kjaftæði um draumaprinsa og peningatré. Las bara spilinn nokkuð vel svo að hann virðist hafa stúderað fræðin áður en hann fór í bisness. Hann hlýtur að hafa grætt nokkuð vel eftir daginn því að næsta dag voru allt í einu 5 skuggalegir spákarlar í götunni......

Wednesday, September 07, 2005

Alltaf gaman í skólanum

Jæja, núna er lífið loksins komið í fastar skorður og allt orðið eins og það á að vera. Eða það vona ég að minsta kosti. Mér tókst að verða mér út um bókasafnskort í lok síðustu viku og get því loksins farið að lesa allar hinar fágætu bækur sem leslisti vetrarins hefur á að skipa. Aðeins eitt vandamál tengt skriffinnsku er þó eftir óleyst; þar sem ég er visiting student er ég ekki formlega skráð í áfangana og fæ þá því ekki upp í bspacenetinu, sem hefur það í för með sér að ég fæ engar upplýsingar um það hvað er að gerast í viðkomandi áfanga. En ég ætla bara að bretta upp ermarnar og fá þessu einhvernvegin breytt, ef ég er heppin tekur það bara ca 2 vikur....

Námið gengur bara nokkuð vel um þessar mundir þrátt fyrir að ég skylji ennþá mest lítið í folklore 250a. En ég skil þó a.m.k. bækurnar í áfanganum þó að það sem kennarinn segi fari svolítið fyrir ofan garð og neðan..... En annars eiga Bandarísku nemendurnir einnig í basli með að skilja kennarann svo kannski er ég ekki svo illa stödd. Ég er einnig í lesáfanga sem ég er ekki alveg ennþá búin að fá á hreint hvernig gengur fyrir sig, en ég hef hugsað mér að tengja hann rannsóknasögu þjóðfræði og er búin að fá grænt ljós frá John Lindow sem ætlar að lesa hann með mér. Að Alan Dundes gengnum er hann sennilega eini vænlegi leiðbeinandinn fyrir þetta viðfangsefni. Problems in folklore er síðan 3. áfanginn sem ég tek þessa önn, hann er kenndur af Tim Tangerlini sem ég er blessunarlega ekki í neinum vandræðum með að skilja, sama hversu hratt hann talar. Annars er ég byrjuð að vinna að fyrirlestri í áfanganum hjá honum, þar sem ég er eina manneskjan sem get lesið norðurlandamálin í þessum áfanga fékk ég úthlutað kynningu á efni bókar á norsku. Það verður annars athyglisvert að sjá hvernig bókin þolir að verða þýdd úr norsku yfir á íslensku og þaðan yfir á ensku.....

Félagslífið er nokkuð skrautlegt eins og gefur að skylja þegar maður býr í húsi sem hýsir 600 manns. Þetta er svolítið eins og að vera í heimavistaskóla 15 árum of seint og ég hætti aldrei að undra mig á drykkjusiðunum í þessari byggingu. Þessa stundina er ég á kaffihúsinu sem tilheyrir byggingunni og umkring ca 60 misdrukknum nemendum frá ca 20 mismunandi löndum. Það skrítna við drykkjumunstrið hérna er þó það að fólk virðist einkum drekka á miðvikudags og fimmtudagskvöldum en er síðan bara nokkuð spakt um helgar.

Síðasta helgi var þó undantekning en á mánudaginn síðasta var frídagur hér. Þetta hafði það í för með sér að á sunnudagskvöldið fór allur mannskapurinn á mígandi fyllerí sem kallað var Pilsapartý. Þetta partý fól það í sér að allir fóru í pils (karlmenn og konur) og reyndu að troða sér inn í samkomusal I-hússins, sem var því miður allt of lítill fyrir tiltækið. Ég ákvað að skella mér í slaginn þar sem ekki var svefnvænlegt hvort sem er fyrir hávaða og skemmti mér bara nokkuð vel. Endaði í partý á fjórðu hæðinni hjá hinum ellismellinum í húsinu, Þjóðverja að nafni Torben, sem við þetta tækifæri skartaði gullfallegu en allt of stuttu köflóttu skólastelpupilsi....


Síðasta sunnudag fór ég í skoðunarferð til San Fransisco með danskri stelpu að nafni Julie. Við ákváðum að fara um borgina fótgangandi til þess að missa nú ekki af neinu merkilegu. Við höfðum alveg gleymt því að göturnar í San Fransisco eru víst frægar fyrir að vera með þeim bröttustu í heiminum..... Gengum í gegnum Chinatown, sem er alveg stórmerkilegt hverfi, og keyptum spákökur fyrir fullorðna beint úr verksmiðju sem við fundum í einu húsasundinu. Ég lenti í mestu vandræðum í blessaðri verksmiðjunni, ég hlýt að hafa verið besti kúnni dagsins þar sem gömul kínversk kona afhenti mér ca 50 kökur í bónus til smökkunar......Þurfi að beita miklum klókindum til þess að lauma þeim í ruslið. En spádómana í kökunum hef ég ekki ennþá skilið og heldur ekki Julie, þeir eru sennilega þýðingar á einhverri speki úr kínversku sem ekki skilar sér inn í okkar skandinavíska hugsunarhátt. Annars gengum við síðan til Fishermans Wharf sem var mjög líflegt sökum þess að það var jú nokkurskonar verslunarmannahelgi í gangi. Tókum kapalvagn frá ca aldamótunum 1900 til baka, bílstjórinn var mjög skrautlegur, gekk út á einni stöðinni með þessum orðum: My good damm shift is over and some other mother fucker punk is going to drive you home. Mér líkaði vel við þennan bílstjóra. Ferðin til baka með lestarvagninum var annars svo hæg að við hefðum sennilega verið fljótari fótgangandi og vangninn drap á sér ca 4 sinnum á leiðina til baka til Bart stöðvarinnar.

Ég má til með að ljúka þessari umræðu með sögu af heimilislausa manni vikunnar. Þann hitti ég hérna fyrir utan kaffihúsið síðustu helgi. Þegar hann komst að því að ég væri frá Íslandi fór hann bókstaflega allur á loft, þar sem Ísland var bókstaflega draumaland hans. Það kom á daginn að hann vissi bókstaflega allt um landið, langaði til þess að flytjast þangað, og var bókstaflega sérfræðingur í norrænni goðafræði. Já, ég meina það, maðurinn gæti bókstaflega kennt fagið upp í Háskóla hér heima. Þessi maður vakti upp nokkrar grunsemdir um það að ákveðin þjóðsaga sem ég heyrði um heimlisleysingjana hér gæti verið sönn, en hún er sú að þeir séu margir hverjir fyrrverandi nemendur við Berkeley háskóla..... En ég sel þetta nú ekki dýrara en ég keypti það.

Friday, September 02, 2005

Heimaland skrifræðisins

Jæja, eftir ca 2 vikna baráttu og fjölda ósigra við að koma á varanlegri nettengingu í herberginu mínu hér á I-house er ég loksins komin með varanlega nettengingu. Það gekk þó ekki þrautalaust fyrir sig, þar sem ég þurfti að hlaupa um í ca 1 viku stofnanna á milli til þess að fá cal id og kóða til að komast inn á þráðlausa campus netið. Fyrsta vikan mín hér fór næstum því öll í að reyna að finna út úr því hvar ég ætti að gefa mig fram og við hverja ætti að tala í sambandi við veru mína í háskólanum. Skrifræðið í þessari borg er engu líkt, og hlutir sem venjulega taka ca 10 mínútur á Klakanum taka sko 10 daga hérna.

Ég keypti sjúkratryggingu í dag, eða réttara sagt byrjaði ég að reyna að kaupa hana fyrir nokkrum dögum og fékk hana síðan í dag. Og borgaði heila 1170 dollara fyrir vikið þar sem ég er víst svo gömul....

Fyrir utan baráttuna við skrifræðisvindmyllurnar hér hefur dvölin verið líkari sumarfríi en skóla, þar sem kennsla hófst ekki fyrr en í þessari viku. Hef notað tíman til að kanna nágrennið og kynnast ca 600 sambýlingum mínum, það er að segja á þeim tímum sem skrifræðisbáknið hefur verið lokað. Barferðir hafa ekki gengið alveg þrautalaust fyrir sig í þessu landi formsatriðanna, og ég hef bæði upplifað það komast ekki inn á bar þar sem ég var ekki með skilríki á mér og þurft að láta 25 ára strák kaupa fyrir mig bjór þar sem ég fékk ekki afgreiðslu....mjög skrítin upplifun, þar sem ég hef nú keypt bjórinn minn sjálf hér heima í 13 ár. En ég verð greinilega að fara að útvega mér einhver skilríki með fæðingardegi önnur en vegabréfið, því það er náttúrulega stórvarasamt að fara með vegabréfið á pöbbarölt.

Það er sífellt verið að mata mann á einhverjum alþjóðlegum menningarviðburðum hér á International house. Á mánudaginn var boðið upp á Salsakennslu og ég ákvað að skella mér í slaginn. Sennilega hef ég ekki réttu genin í þetta, því það var engu likara en verið væri að kenna ísbirni að dansa....... En ég skemmti mér vel, þarna voru ca 100 manns ca 40 konur og 60 karlmenn sem er eitthvað sem aldrei gæti átt sér stað á Íslandi.

Fyrstu tímarnir mínir voru í þessari viku, og mér lýst bara nokkuð vel á áfangana mína. Einn á þó eftir að reyna virkilega á enskukunnáttu mína, þar sem ég skildi ekki eitt einasta orð sem kennarinn sagði ca 1 klukkutíman af kennslustundinni.......Hann er víst einstaklega post modernískur....... En seinasta klukkutímann fór maðurinn að tala ensku svo kannski verður þetta allt í lagi.

Mannlífið hér er ansi fjölskrúðugt og ég er að spá í að gera það að hefð að segja eina sögu af hinum kostulegu karaterum þessarar borgar í hvert sinn sem ég blogga. Ég fór til El Cerrito í dag að kaupa nokkrar nauðsynjar og hitti afar athyglisverðan ungan mann fyrir utan stórmarkaðinn sem ég fór í. Sá var college nemandi og var að safna peningum frá almenningi fyrir stærðfræðibókinni sinni. Pilturinn veifaði fullt af pappírum til að sanna mál sitt og bað svo kurteislega um fjárframlag. Ég gaf pilti nokkra dollara, þar sem ég gat ekki annað en dáðst að sjálfsbjargarviðleitninni....Kannski ættu íslenskir námsmenn að reyna þessa aðferð til að drýgja námsláninn....