Wednesday, November 30, 2005


Úppps....

Wednesday, November 23, 2005

laser yfirstaðin, soldið blurrý

Þá er ég enn og aftur á kaffinu með hvítvínsglas, en að þessu sinni alein og yfirgefin þar sem flestir hafa yfirgefið I-húsið vegna Þakkargjörðarhátíðarinnar. Sem er bara mjög gott þar sem það skapar afar gott næði fyrir heimanámið. Ég get ekki sagt að ég sakni þess að gera mér dagamun þessa helgi, því að ég hef jú lifað án Þakkagjörðarkalkúns í 33 ár og tel mig því alveg geta sleppt þessari hátíð. Mér stóð reyndar til boða að vera ættleidd þessa helgi af Amerískri fjölskyldu, en taldi það vera helst til seint í rassinn gripið, þar sem ég er nú 33 ára gömul og ætti eiginlega að eiga fjölskyldu sjálf......

Það er helst að frétta að frétta að lasik augnaðgerðin er yfirstaðin. Já, þið lásuð rétt, ég er núna gleraugna og linsulaus, að vísu ennþá hálfblind eftir aðgerðina en vona að það lagist á næstu dögum. Ég fór í tékk á fimmtudaginn sem leiddi í ljós að ég var ágætis kandídat fyrir svona aðgerð og fékk tilboð upp á 3500 dollara, sem er hellings peningur, en samt ekki eins dýrt og heima. Þar sem Buddi Holly gleraugun góðu voru við það að detta í sundur og það hefði verið hreinsta bruðl að kaupa ný og ætla hvort sem er að fara í aðgerðina á næstu mánuðum, ákvað ég að hoppa á tilboðið. Og gat valið um síðasta mánudag eða ekki fyrr en í desember. Svo að á mánudaginn mætti ég á augnlæknastofuna í fylgd Julie (dönsk) og lagðist undir laserinn. Fékk valíum fyrir aðgerð, sem stóð aðeins í ca 5 mínútur. Hjúkkan lét mig fá verkjatöflur, svefntöflur og 4 tegundir af augndropum í nesti og síðan var ég send heim með svört stórkonusólgleraugu sem huldu nánast allt andlitið á mér(sennilega aðeins framleidd í einni stærð). Og var mikið feigin að hafa tekið Julie með mér, því annars stæði ég sennilega ennþá fyrir utan augnlæknastofuna í valíumrús....

Þegar að heim var komið át ég svefn og verkjatöflurnar góðu og lagðist undir feld, eftir að hafa sett upp þau alljótustu bólstruðu skíðagleraugu sem ég hef á ævi minni séð. Þennan hrylling á ég víst að sofa með í heila viku, og er tilgangurinn sá að ég klóri mér ekki í augunum eða kýli sjálfa mig í svefni. Þetta eru ekki einu svefnóþægindin, því að auk þess þarf ég að sofa á bakinu með kodda sitt hvoru megin við hausinn. Tilgangurinn með þessu er víst sá að koma í veg fyrir að ég rúlli á hliðina og skapi þrýsting á annað augað. Þið ættuð bara að heyra hroturnar sem ávallt fylgja mínum baksvefni.....Og svo eru það blessaðir augndoparnir, ein tegund á 2 kls fresti og önnur á 4 kls fresti....og aðrar tegundir eftir viku. Annars hef ég smá áhyggjur af árangrinum, þar sem ég sé alveg ágætlega orðið með öðru auganu en ekki með hinu. En ég sá annars verr með hægra auganu áður, svo að kannski þurftu þeir að gera meira við þar.....En ég vona að þetta verði ok á næstu dögum, því að annars rek ég upp skaðræðis öskur í augntékkinu í næstu viku......

Annars er fátt annað að frétta, ég fór í matarboð til Scotts (breskur og alsgáður að þessu sinni), í gær með Julie hinni fyrrnefndu. Hann er að passa höll einhverns vinnufélaga uppi á fjalli, og sótti okkur um kl 18:30, svo að í þetta skipti slapp ég alveg við að villast strætanna á milli. Við snæddum mjög góðan marakóskan túnfiskrétt og horfðum á sjónvarpið, það er að segja þau horfðu á sjónvarpið og ég giskaði á hvað væri að gerast á skjánum þar sem sjónin var soldið blurrý eftir aðgerðina. En þarna fer ég að öllum líkindum aftur á morgun í Þakkargjörðarkvöldverð. Þar sem Scott er grænmetisæta (borðar samt fisk), verður alveg örugglega ekki kalkúnn á borðum. Hann harðneitar að gefa upplýsingar um matinn en ég vona að það verði ekki soyakalkúnn......eða baunastappa.

Wednesday, November 16, 2005

partýpúp, fjölendagötur og fleira

Hvítvínið rennur ljúflega niður að vanda hér í landi lögreglupartýpúpara og meints frjálsræðis. Ekki það að ég hafi beint eitthvað upp á þessa partýpúpara að kvarta, enda sárasjaldan farið í partý hér í bæ, en síðustu helgi gat ég samt ekki annað en tekið eftir því að það ríkir afar lítið umburðarlyndi í garð óformlegs skemmtannahalds meðal bæjaryfirvalda hér í Berkeley. Ég var nefnilega að læra til kl. 02 á laugardagskvöldið og um ca miðnætti hitti ég hóp af fólki sem hafði verið í partýum víðsvegar um Berkeley. Þessi partý fengu öll þann sorglega endir að vera stöðvuð af lögreglunni. Mér taldist til að ég hefði hitt einstaklinga sem voru að koma úr ca 5 aðskildum partýum.....Vá, lögreglan hlýtur að hafa verið rennisveitt við sitt helsta verkefni, Partýpúping. En ég er ansi hrædd um að ef við hefðum sama umburðarleysi gagnvart drykkju og skemmtannahöldum á Íslandi og eru við ríki hér, væri allt logandi í óeirðum og uppreisnaranda. En í stað þess að brenna bíla og mótmæla skorti á mannréttindum (þ.e. réttindum tengdum friðhelgi heimilisins og því hverju þar fer fram), hengir Kaninn haus og segir; Æ, þetta hefur bara alltaf verið svona...

Á sunnudagkvöldinu fór ég nú samt í hálfgert partý. Þetta var svona fínt partý, heima hjá JL í Skandinavíudeildinni. Það er alltaf soldið skrítið að hitta prófessorana og kennarana í Skandinavíudeildinni af því að annar hver talar íslensku. Finnst soldið erfitt að muna hverjir þeirra það eru samt....og tala orðið alveg hundlélega íslensku enda í engri æfingu. En partýið var hjá John, sem býr í Oak Knoll Terrance hér í Berkeley. Hann sendi mér bara nokkuð góðar leiðbeiningar; elta Piedmont Ave til enda, beygja til vinstri, elta götuna að ljósunum og beygja síðan til hægri og þá ertu komin. Semsagt, ekkert mál, bara ein míla. En annað kom þó á daginn þegar gönguferðin hófst og eins og ég á vanda til rammviltist ég náttúrulega. Í ljós kom að Piedmont Ave, sem reyndar er gatan sem ég bý í, endar á alveg hreint ótal mörgum stöðum. Og á einum staðnum var meira að segja búið að snúa götuskiltinu í ca 10 hringi. Og á öðrum dauðum enda pissaði maður næstum því á mig....held að það hafi samt ekki verið viljandi heldur kannski bara náttblinda. En eftir að hafa endað Piedmont Ave ca 10 sinnum án þess að finna Oak Knoll eða einhver götuljós, gafst ég upp og hringdi í Bilal (pakistanskur) heima í I-House og bað hann um að fara á netið og leiðbeina mér að Oak Knoll. Samtal okkar gekk eitthvernmegin svona fyrir sig:

Ég: ég stend núna við Edison skólann....
Bilal: Nei, það er enginn Edison skóli á kortinu...
Ég: Ok, ég geng aðeins lengra áfram, en Piedmont endar samt virkilega hérna...
Bilal: Hvaða gata krossar hjá þér?
Ég: Hér er einhver sem heitir Gerber, hún var ekki í leiðbeiningunum og endar inni í fjallinu....
Bilal: Ef þú ert í Gerber, ertu mjög heit, Oak Knoll er bara rétt hjá þér.
Ég: Ó, hér er einhver göngustígur, en hann liggur upp fjallið.
Bilal: Hvað er götunúmerið?
Ég: Gerber 2815, er ég heit?
Bilal: Já, þú hlýtur að vera komin.
Ég: púff púff (afar andstutt eftir fjallgönguna), nú er ég við Gerber 2825, er ég heitari?
Bilal: Já, samkvæmt kortinu ertu hreinlega komin.
Ég: Ég sé svakalega götu með fullt af höllum, best að leita að skilti.....Ojá, þetta er Oak Knoll, vá ég er komin og bara einni klukkustund og tuttugu mínútum of sein.

Ójá, kennarapartý eru fín, en mikið svakalega er erfitt að rata í þau. Og þegar í partýið var komið vakti það bara kátínu hvaða leið ég hafði komið. Átti víst ekki að brölta yfir neitt fjandans fjall. En mér leið samt bara nokkuð vel eftir nokkur hvítvínsglös og allt talið á ástkæra ilhýra.

Komið hefur í ljós að fyrirbærið veður er ekki sér íslenskt fyrirbrigði, það er einnig að finna í þeim ágæta paradísarbæ Berkeley. Frá aðfararnótt mánudags og allt fram á mánudagskvöld, nötraði allt og skalf, og reyndist ástæðan vera hávaðarok. Þetta kom okkur skærgrænum íbúum I-house algerlega í opna skjöldu, enda búið að fylla kollinn á okkur með sætum, hvítum lygum um eilífa veðraparadís þar sem aðeins rignir á nóttinni og rok þekkist ekki. En þetta reyndist því miður ekki vera alveg rétt, og ofan á allt var ofninn í herberginu mínu bilaður, svo að aðfaranótt mánudags var alveg hreint svakalega köld. Enda engar almennilegar sængur að finna hér í bæ, aðeins tilbrigði við ábreiður sem ekkert gagn gera. Svo mikill var kuldinn þegar verst var að minnstu munaði að ég héldi af stað í karlaleit með það fyrir augum að láta hann hita upp beddan minn....


Í morgun var ég síðan vakin upp með andfælum klukkan hálfellefu um morguninn, sem er afar ókristilegur tími þegar maður hefur verið að læra til klukkan þrjú nóttina áður. Mættur reyndist vera heljarinnar rumur sem sagðist ætla að laga ofninn minn. Það tók mig þó nokkurn tíma að muna að ég hafði víst kvartð yfir honum við yfirvöld hér á bæ á mánudaginn var. Og á meðan maðurinn mundaði áhöld sín við ofnin bilaða ranglaði ég um herbergið eins og móðursjúk hæna, enda glænývöknuð og óvön að hafa viðgerðakarla í svefnherberginu mínu. Sennilega leyst kauða ekkert á mig, þar sem hann tilkynnti mér loks að hann þyrfti að ná í fötu og kæmi aftur eftir smá stund, ef ég skildi nú vilja nota tækifærið og klæða mig á meðan? Það var fyrst þá sem ég áttaði mig á því að ég var á náttfötunum og þeim ekki mjög siðsamlegum.....En ég tók manninn á orðinu, hentist í föt og yfirgaf herbergið, alveg hreint svakalega illa úfin og ógreidd. Og hélt mig fjarri herberginu meðan á viðgerð stóð af einskærri blygðun yfir náttfatasýningunni. En maðurinn gerði sitt gagn og ofninn malar hreinlega af hita og ánægju núna og engin þörf á aukahita í rúmið lengur.

Ég hef annars litið svakalega nördalega út síðustu viku, svo að líklega hefði karlaleitin gengið afar treglega á mánudagsnóttina ef á hefði reynt. Ástæðan er sú að augun mín tóku allt í einu upp á þeim óskunda að hafna linsunum, svo að síðustu daga hef ég gengið um með Buddi Holly gleraugun mín öllum til mikillar skelfingar. Þar sem ég hef komist að því að gleraugnastúss er ekki einfalt mál hér í landi kapitalisanna, ákvað ég að skoða annan möguleika, þ.e. laseraðgerð. Og fann einn aðila sem býður upp á frítt tékk fyrir svona aðgerðir og gerir síðan tilboð í augun á manni. Mæti þangað í fyrramálið og læt ykkur síðan vita hvernig fer í næstu viku. Svo kannski kem ég heim til landsins bláa með alveg hreint splúnkuný augu um jólin....

Thursday, November 10, 2005

Poker, bjórkvöld og fleira

Ég biðst afsökunar á langri ritstíflu undanfarið, þá sjaldan sem ég hef haft tíma til að skrifa eitthvað, hefur ég hreinlega ekki haft orku eftir til að skrifa eitthvað af viti. En í kvöld stendur þetta allt til bóta, enda er ég nýkomin heim af happy hour hjá þjóðfræðinni og bara nokkuð mild eftir örfáa bjóra á þeim ágæta stað Blake´s. Og er aðeins of kát til að setjast að lestri, svo að það er víst eins gott að eyða restinni af kvöldinu í hvítvín og blogg.

Fyrst af öllu biðst ég velvirðingar á því að setja ekki fleiri myndir inn á bloggið mitt. Málið er það að ég er gjörsamlega fötluð þegar kemur að tæknimálum, auk þess sem mín ágæta en mjög svo þrjóska rammíslenska tölva hefur þróað með sér einstakan gremjuvírus gagnvart bandarísku netkerfi, sem hefur það í för með sér að hún er ófáanleg til þess að tengjast ákveðnum vefsíðum sem taka að sér að birta myndasíður. Svo að ef einhver vill sjá fleiri myndir frá hrekkjavöku, bendi ég á síðu Klaus kunningja míns, á slóðinni http://galleries.ktruehl.net/index.php?spgmGal=berkeley_05-06&spgmFilters=. En ég mun samt halda áfram að vinna í myndamálinu og hver veit nema mér takist loksins að búa til link á myndirnar mínar hér á síðunni minni, ja, eða finna einhvern sætan snilling hér innanhús sem græjar þetta allt saman fyrir mig.

Ég hef annars vægt til orða tekið verið frekar önnum kafin upp á síðkastið. Ástæðan er að sjálfsögu ritgerðarskrif og annað sem hefur hrunið yfir mig hér í náminu. Skil ekki alveg hvernig hinir fara að þessu. En var samt bent á það að flestir alþjóðlegir framhaldsnemar láta sér nægja að taka tvo áfanga en ekki þrjá eins og ég. Svo að nú skil ég betur af hverju nágrannar mínir virðast alltaf hafa tíma fyrir bjór.....

Annars tók ég pásu frá ritgerðaskrifunum á mánudagskvöld, miðvikudagskvöldinu og nú í kvöld, fimmtudag, svo að ég ætti ekki að vera að vorkenna sjálfri mér svona fjandi mikið. Á mánudagskvöldinu átti Claire (frönsk) afmæli og að sjálfsögðu var mér bæði ljúft og skilt að heiðra hana með nærveru minni og bergja á frönsku kampavíni og jarðaberum hér í I-house. Á miðvikudaginn lagðist ég síðan í fjáhættuspil og spilaði poker, og þrátt fyrir að hafa aðeins spilað Texas holdem einu sinni áður, gerði ég mér lítið fyrir og vann pott kvöldsins, sem að þessu sinni var 40 dollarar. Og þurfti að kaupa könnu af bjór handa spilafélögunum fyrir vikið. Semsagt, alveg óvænt bjórdrykkja..... en strákarnir virtust bara nokkuð sáttir við að hafa tapað fyrir konu sem þar af auki var byrjandi eftir bjórinn..... röfluðu samt eitthvað um byrjendaheppni...En vá, mikið djöv...er ég góður blöffari!

Í kvöld var síðan bjórkvöld hjá þjóðfræðinni hér í Berkeley, og þar sem fundarstaðurinn reyndist vera aðeins steinsnar frá I-house ákvað ég að mæta á svæðið. Að þessu sinni var bara nokkuð góð mæting og að vanda líflegar umræður. Meðal annars ræddum við skrítnustu vinnur sem við hefðum unnið um ævina, og ljós komu margir mjög athyglisverðir vinnustaðir, eins og sláturhús, kalkúnabú og fleira. Held samt að ég hafi haft vinninginn, þar sem ég vann við að vökva blóm í fyrirtækjum/stjórnarráðum og skreyta jólatré forðum daga í blómaval......Erfitt að toppa það.

En talandi um jólin, í lok nóvember ætla ég að kaupa jólaseríur og setja í gluggan minn, sama hvað hver segir(veit ekki alveg hver stefnan í jólaskreytingum er hér í Berkeley). Og fara í alveg brjálað íslenskt jólaskap....og hlakka til að fara heim í: rok/skafrenning/slyddu/byl/frost/rigningu....

Friday, November 04, 2005

Myndir, annar skammtur

Á leiðinni í hrekkjavökupartý, ég, Jaime, Claire, Torben, Astrid, Tim, Klaus, Buhraim (ekki viss um stafsetningu á þessu nafni)
Mjallhvít/Claire
Og aftur....
Súperafi/Torben gerður klár
Gekk ekki vel.....

Thursday, November 03, 2005

Myndir, fyrsti skammtur

Ég í Svanakjólnum góða á leið í hrekkjavökupartý
Sólsetur séð frá I-House
Meira sólseturBerkeley að kvöldi til
Lika Berkeley

Tuesday, November 01, 2005

Sögur af djammi

Þá er ég enn og aftur komin á borðið mitt fyrir utan I-house kaffið og með hvítvínið góða, enda þótt að ég hefði nú vart list á því eftir þrotlaus partý og gleðskaparkvöld síðustu viku. Já, í síðustu viku varð ég alveg spinnigal og djammaði hvorki meira né minna en 4 sinnum á 7 dögum. Sem bætir alveg upp síðustu vikur sem hafa að mestu snúist um skólann og ekkert annað. Tilefnið að öllum þessu djammi var að sjálfsögðu Hrekkjavakan, sem hér í bæ líkist mest kjötkveðjuhátíð, sökum þess að hún teygir sig yfir marga daga og felur í sér nokkuð viðstöðulausa drykkju. Og mikið af hálfnöktu fólki.......

Djammstandið hjá mér hófst nokkuð hóflega á miðvikudaginn, með bjórdrykkju hér á kaffinu. Þar mættu Torben, Tim og Klaus (þýskir), Claire og Astrit (franskar) og Jaime (segir maður Kosta ríkastur þegar einhver er frá Costa Rica?)......Verið að fara ofan í saumana á væntanlegri hrekkjavöku sjáið nú til........Og áður en við vissum vorum við búin að slátra nokkrum könnum af bjór og partýferð á föstudagskvöldinu komin á koppinn.

Á fimmtudagskvöldinu mætti ég á Triple rock happy hour hjá þjóðfræðinni hér í Berkley sem venja er á fimmtudagskvöldum. Annars er eiginlega alltaf happy hour hjá mér hér í Berkeley þar sem bjórinn kostar aðeins 1/3 af því sem hann kostar heima.......En að þessu sinni ætlaði ég aðeins að staldra við í klukkustund og halda svo heim þar sem ég hafði tekið svolítið hressilega á því kvöldið áður......En í ljós kom að flestir voru á leið til San Fransisco þetta kvöld, og þar sem ég sá fram á að fá bílfar fram og til baka stóðst ég ekki freistinguna og hoppaði með.......Og upplifði tvímælalaust skemmtilegasta kvöldið mitt hér hingað til.

Leiðinn lá á bar sem nefndist því frekar neikvæða nafni Bottom of the hill. Sem mér fannst frekar fyndið þar sem að í síðustu viku, eins og þið kannski munið, var ég stödd í klúbbi að nafni Top of the mark. Ég fór semsagt frá toppinum á botninn á aðeins 7 dögum......Bottom of the hill reyndist vera live performance bar sem sérhæfir sig í athyglisverðum tónlistaratriðum. Undrin hófust með stórundarlegum náunga í gylltum geimbúningi sem söng stórfurðuleg lög fyrir framan hvít tjöld. Einhverjir hljóta að hafa verið að störfum bak við hann þar sem klippimyndir birtust stöðugt á hvítu tjöldunum.....mjög skrítið og erfitt að lýsa. Eftir að geimgæinn og klippimyndirnar höfðu lokið sér af steig á stokk hljómsveitin Dead hen sons pleaseeasaur, en þessi ágæta hljómsveit samanstóð af ca 7 einstaklingum og spilaði eingöngu lög úr Prúðuleikurunum. Já, þið munið, Kermit, Svínka og þetta lið....og þau voru alveg hreint frábær, spiluðu inn á milli á teskeiðar, steppskó og fleira furðulegt sem ég kann ekki að nefna. Eftir að Dauðu Hensonarnir runnu sitt skeið, mætti á sviðið hljómsveitin Captured by robots, sú hljómsveit samanstóð af einum manni og sex vélmennum....sem voru öll klædd í Star trek búninga og léku frekar súrt þungarokk. Og voru bara helv...góðir. Ég kom heim klukkan 01, með svartar naríur í hendinni sem státuðu af þessari skemmilegu áletrun: This ass has been capture by robots. Hlýt að hafa fundist þetta afar merkilegur minjagripur um Ameríska menningu þegar ég keypti þær.....

Á föstudagskvöldinu fór ég í partýið góða sem planað var á miðvikudaginn. Þetta var búningapartý og því varð ég að fá mér búning í hvelli á föstudaginn. Þar sem mér skorti hráefnið til þess að búa til Loðna manninn eða eitthvað annað gamalt og gott íslenskt, ákvað ég að endurvekja tiltölulega ungt hryllingssjokk íslensku þjóðarinnar, og bjó til: Svanakjólinn hennar Bjarkar..... Og trúið mér, ég var hrikalega flott....Í hvítum puffpilsi og fjaðraboga með mjög dauðan svan á öxlinni..... tungan úti og allt.....Og með alveg ekta íslenskan hreim....Skemmti mér dúndur vel í partýinu sem var í Oakland, en mikið lifandis ósköp tók langan tíma að finna taxa heim.....

Þar sem ég hafði djammað helst til mikið undanfarna daga var ég alveg spök á laugardag og sunnudag (að læra, má víst ekki alveg gleymast í fjörinu), en á mánudaginn var hrekkjavakan sjálf, og ferðinni heitið í Casto í San Fransisco. Fór með The folks, þ.e. þjóðfræðinni hérna í Berkeley, og að sjálfsögðu í svanadressinu góða. Það sérkennilega var að það var barasta hellingur af fólki sem bar kennsl á búninginn....Var alltaf að heyra einhvern kalla: hey Björk... og fullt af fólki tók myndir af mér. Svo að fólk virðist muna nokkuð vel eftir kjólnum góða.... sem mér finnst bara nokkuð flottur....En áfram með söguna. Við tókum Bart, sem er lestarkerfið hér í Berkeley til San Fransisco. Ferðin var öll hin ævintýralegasta, þar sem fleiri voru á ferðinni en lestirnar rúmuðu....svo að vagninn sem ég var í var hreinlega eins og sardínudós. Sá að það leið yfir eina stelpuna í vagninum mínum, slík voru þrengslin....og ég held ég hafi barasta lengst um nokkra sentimetra í þrengslunum (er sennilega 1.65 núna í staðin fyrir 1.60....og mjóóó, mikil ósköp). Minni voru þrenslin ekki í Castró, og eftir ca 30 mín á staðnum var ég hreinlega farin að þrá að komast heim....enda hef ég aldrei getað þolað þrengsli. Þrátt fyrir allt var þetta alveg þess virði að sjá, því ég hef aldrei séð annað eins samansafn af skrítnum búningum. Til dæmis var þarna maður með sitt eigið höfuð undir hendinni og kona sem var bara í örfáum svörtum málingarblettum...og önnur bara í smáfjöður milli fótanna....þeim hlýtur að hafa verið kalt....brirrh. Það var gott að komast heim eftir öll lætinn, en Bartvagninn sem ég tók heim var svo grasreyktur að ég var hreinlega hálfskökk þegar ég kom út úr honum.....En sem dæmi um öll þrengslin þetta kvöld, þá datt ókunnugur kveikjari út úr brjóstarhaldaranum mínum þegar ég fór í sturtu um nóttina......Einhver hlýtur að hafa misst hann og úpps......