Thursday, February 15, 2007

Ég er alger proffi....svona á köflum

Vá, það er bara búið að flytja mig yfir í einhvern spánýjan blogger sem ég veit ekkert um. En þeir lofa víst að allt gamla bloggið verði samviskusamlega flutt yfir og að þetta nýja form sé miklu tæknilegra og betra. Svo kannski get ég loksins skipt út þessari hræðilegu mynd af mér þar sem ég sit sauðdrukkin í grasinu og Guðrún setti inn á sínum tíma (takk samt Guðrún, ég vil ekki hljóma vanþakklát, en .......).

Eftir að hafa komist að þeirri niðurstöðu að ógerlegt væri að finna nafn á ráðstefnuabstractinn sem ég var að reyna að skrifa í upphafi þessarar viku hef ég ákveðið að sleppa bara þessari blessaðri ráðstefnu sem ég get hvort sem er ekki munað hvar og hvenær átti að halda. Vandræðagangur í vali á heiti erindis bendir nefnilega til þess að maður hafi ekki minnsta grun um hvað maður ætlar að tala um, svo að ég held að ég sé bara ekki komin alveg nógu langt með ritgerðarskrifin mín til þess að áætla framtíðar fyrirlestra um efni hennar. En ég er viss um að það koma ráðstefnur eftir þessa ráðstefnu og verð bara aðeins meira tilbúin næst.......

Annars er það helst að frétta úr framhaldssögunni Júlíana tæknivæðist, að Jói símvirki í Vík hefur ennþá ekkert látið sjá sig með nýja, fína og flotta ADSL (sko, rétt skammstafað) tenginguna mína. Ég fékk reyndar sent eitthvað appparat frá símanum og reyndi að tengja það sjálf í örvæntingu minni, en í ljós kom að apparatið það tarna var bilað (bilað við komu alltsvo en ekki vegna meðferðar minnar). Svo að eftir mörg, mörg símtöl við þjónustuver símans lofuðu þeir að senda formlega beiðni til Jóa sím., láta hann koma með nýtt apparat og tengja það fyrir mig. Þetta hafði víst ekki verið gert þegar ég pantaði ADSL tenginguna upphaflega; líklega hafa þeir gert ráð fyrir að ég væri annað hvort svo tæknivædd að ég gæti tengt þetta allt saman sjálf eða svo tæknifötluð að mér myndi duga að mæna á apparatið sjálft í lotningarvímu.

Í gær gerðist ég svo fræðimaður með meiru og ók út um allt plássið með þjóðtrúarkannanir í farteskinu og neyddi upp á grandarlausa íbúa þessa samfélags. Fór í sjoppuna, búðina og Kaupþing póst (sparnaðarráðstafanir í þessu plássi hafa leitt til sameiningar bankans og pósthússins). Til að kóróna fræðimannsheitin þurfti ég náttúrulega að gleyma bílnum mínum í búðinni og var gengin hálfa leið heim áður en ég fattaði það. Að þessu sinni held ég þó að enginn hafi tekið eftir þessu; ég gekk bara til baka eins og ég væri á hreinni skemmtigöngu og hefði einmitt skilið bílinn viljandi eftir á miðju Kjarvalsplaninu (og svona leikaraskapur er sko erfiður í plássi þar sem allir þekkja alla og vita allt um það hvaða bíl maður á). Annars held ég að þessi gleymska hafi ekki verið nein tilviljun, heldur skilaboð frá undirmeðvitundinni. Líklega var hún að reyna að segja mér að ég þyrfti nauðsynlega að fá mér nýrri og flottari bíl......

Ritgerðarskrif mín mjakast áfram á hraða snigilsins þessa dagana og eftir nokkra vikna barning er ég einungis komin á bls 10. Akkúrat núna er ég að klára að skrifa um samanburðarrannsóknir og hef rekist á vegg hinna torráðnu textatengsla. Og hef grun um að ég muni dvelja við þann vegg lengi, lengi........

Sunday, February 11, 2007

Flutt á vit ADLS draumsins

Nú er loksins farið að hylla undir það að bloggsíðan mín gangi í endurnýjaða lífdaga. Ef guð og Jói símvirki í Vík lofa, mun ég nefnilega fá ADLS tengingu eftir helgina, Skjá einn og fullt af öðru fíneríi. Til þess að fá allt þetta fínerí þurfti ég náttúrulega að yfirgefa hið notalega hreiður Syðri-Steinsmýri og flytja mig aðeins nær þéttbýlismenningunni. Ég er semsagt flutt aftur (í bili) í hið líflega þorp Kirkjubæjarklaustur, sem státar af kaffihúsi, hóteli, dýrustu matvöruverslun heims, elliheimili, heilsugæslustöð, bókasafni, grunnskóla, hreppsskrifstofu, sjoppu og sennilega ca 35 húsum, sem flest eru vandlega falin bak við ofvaxinn trjágróður garða sinna. Að vísu er kaffihúsið lokað á veturnar, sjoppunni skellt í lás klukkan 8 á kvöldin, og nánast ómögulegt að hitta á hreppsskrifsstofuna opna. En hverjum er ekki sama um það, hér er ADLS í boði og hægt að liggja á netinu alla daga, og svo góna á Skjáinn, óseiseijá.....

Það er kannski eins gott að nettengingarmál mín komist í lag fljótlega, því að síðustu helgi andaðist gsm sími minn saddur lífdaga. Hann var af gerðinni nokia 5110 og hafði þjónað eiganda sínum dyggilega í næstum áratug. Dánarorðsök hans var gin og tónik, sem hann mun hafa neytt síðla kvölds á þokukenndum bar einhverntíma eftir þorrablót þjóðfræðinema. Vaskur meðlimur flugbjörgunarsveitarinnar endurlífgaði hann reyndar að hluta til strax næsta dag með eldsspýtnaþræðingu, svo að nú má með harðfylgi hringja úr honum í öll símanúmer sem ekki innhalda 0. Sem þýðir það að ég mun ekki hringja í neinn sem hefur 0 í símanúmerinu sínu fyrr en ég kemst í bæinn með flotta, fína en læsta gsm símann sem ég keypti út í henni Ameríku í fyrra.

Þessa dagana er ég að kljást við að semja ráðsstefnuabstract á ensku, eftir því sem tími gefst til á milli hótelstarfa og ritgerðaskrifa. Þessi abstractsskrif mín eru reyndar soldið skondin í ljósi þess að ég er eiginlega ekki búin að ákveða hvort að ég ætla eða hreinlega kemst á ráðstefnuna, sem er víst á næsta ári (hvar var hún annars aftur og hvenær?). Og hvað þá heldur ákveða hvað ég ætla að reyna að tala um..... Svo að ég neyðist víst til að hanna kafloðinn abstract sem gerir mér kleift að tala um næstum því hvað sem er þegar á hólminn er komið. En þetta gengur bara hreint ekki vel, því að af einhverri ástæðu hefur enskunni minni hrakað svo mikið síðustu mánuðina að orðin 200 líta hreinlega út fyrir að hafa verið skrifuð af 5 ára barni. Og í ferlinum hef ég rekið mig á mjög alvarlega orðabókavankannta; þær gefa þér upp hrúgu af einskis nýtum skammstöfunum en þegja svo þunnu hljóði um það hvernig eigi að skammstafa orðið t.d. á ensku. Svo að ég auglýsi hér með eftir þeirri skammstöfun í von um að einhverjir hafi ekki gefið lestur þessarar bloggsíðu upp á bátinn þrátt fyrir hinar löngu og þrúgandi þagnir.......

Annars er það helst að frétta hér úr þessari sveit að um sig hefur gripið mikið framkvæmdarfár sem lýsir sér í því að hótel spretta hér upp eins og gorkúlur um allar sveitir. Sem er náttúrulega fín mál (fleiri barir í þessa sveit, já takk), en kallar á nokkrar vangaveltur um það hverjir eigi eiginlega að starfa á öllum þessum hótelum. Ég hef eiginlega minni áhyggjur af því hverjir eigi að gista þau, hér er jú hægt að selja hvert einasta gistirými 10 sinnum hvern dag frá byrjun júní til ágústloka. En þetta eru allt saman bara sumarstörf sem í flestum venjulegum bæjarfélögum eru mönnuð með skólakrökkum í sumarfríum. Og þetta er nefnilega samfélagshópur sem er eiginlega bara ekki lengur til í þessari sveit. Bekkirnir í grunnskólanum eru komnir niður í 3-5 nemendur og fátt sem bendir til fjölgunar í fyrirsjáanlegri framtíð. Svo segir að minnsta kosti gamall maður hér í sveit sem tilkynnti mér áhyggjufullur um daginn að í öllum hreppnum væru einungis 18 konur í barneign. Og samt taldi hann mig allra náðugsamlegast með, þótt að ég væri nú hálfgerð geldkona!......(Þýðing: Búin að pipra lengi, alveg að komast í kaskó og ekki líkleg til stórafreka á fjölgunarsviðinu í millitíðinni). En ég held nú samt að þetta sé eitthvað vantalið hjá honum, þetta getur bara ekki verið svona slæmt.