Wednesday, July 18, 2007

Ég er flutt!

Nú er ég búin að gefast upp á þessari síðu og komin á blogcentral.is. Nýja slóðin er http://www.blogcentral.is/jullasvakagella

Saturday, July 14, 2007

Ég mundi aðgangsorðið inn á bloggsíðuna!

Eftir að hafa tekið samviskusamlega nýfundnar minnistöflur mínar síðustu daga hefur mér tekist að rifja upp aðgangsorð mitt að þessari bloggsíðu. Að því tilefni ákvað ég að láta ljós mitt skína á ný og láta þessa síðu ganga í endurnýjaða lífdaga. Minnistöflurnar góðu fann ég reyndar fyrir tilviljun í lyfjaskúffu minni fyrir hálfum mánuði, þær hafði ég víst keypt fyrir síðustu jólapróf en alveg steingleymt að taka þær......En árangurinn lét ekki á sér standa að þessu sinni, þetta eru fosfórtöflur og nú geng ég um eins og sjálflýsandi kyndill í myrkrinu og man alveg hreint ótrúlegustu hluti. Sem dæmi um hið snarbætta minni mitt má nefna að ég hef ekki gleymt bílnum mínum neinstaðar í meira en hálfan mánuð og man skyndilega nöfnin á öllum kærustum minna fimm systra, líka þeim nýjustu, seiseijá......

Annars er ég á Klaustri þessa dagana í ,,sumarfríi/vettvangsferð'', mætti austur með heila ferðatösku af gögnum til að greina. Áður en ég vissi af var þó búið að snara mig í vinnu við neyðarreddingar í ferðaþjónustugeiranum, bæði hér á Klaustri en einnig á Hornafirði eins furðulega og það hljómar nú. Í þessum geira ríkir nú hálfgert neyðarástand á landsbyggðinni sökum þess hversu lítið er orðið eftir af ungu fólki í byggðarlögunum til að vinna þessi störf. Hér er engin atvinna á ársgrunni sem þýðir að ekkert starfsfólk er í boði þessa þrjá mánuði ársins sem allt fer á hvolf vegna túrista. En að sjálfsögðu verð ég að hætta að vera svona meirlind og læra að segja nei, ég má eiginlega ekkert vera að því að standa í svona reddingum...

Já, ég er sko þreytt og það verður gott að komast aftur í bæinn og hvíla sig ærlega eftir sumarfríið......

Thursday, February 15, 2007

Ég er alger proffi....svona á köflum

Vá, það er bara búið að flytja mig yfir í einhvern spánýjan blogger sem ég veit ekkert um. En þeir lofa víst að allt gamla bloggið verði samviskusamlega flutt yfir og að þetta nýja form sé miklu tæknilegra og betra. Svo kannski get ég loksins skipt út þessari hræðilegu mynd af mér þar sem ég sit sauðdrukkin í grasinu og Guðrún setti inn á sínum tíma (takk samt Guðrún, ég vil ekki hljóma vanþakklát, en .......).

Eftir að hafa komist að þeirri niðurstöðu að ógerlegt væri að finna nafn á ráðstefnuabstractinn sem ég var að reyna að skrifa í upphafi þessarar viku hef ég ákveðið að sleppa bara þessari blessaðri ráðstefnu sem ég get hvort sem er ekki munað hvar og hvenær átti að halda. Vandræðagangur í vali á heiti erindis bendir nefnilega til þess að maður hafi ekki minnsta grun um hvað maður ætlar að tala um, svo að ég held að ég sé bara ekki komin alveg nógu langt með ritgerðarskrifin mín til þess að áætla framtíðar fyrirlestra um efni hennar. En ég er viss um að það koma ráðstefnur eftir þessa ráðstefnu og verð bara aðeins meira tilbúin næst.......

Annars er það helst að frétta úr framhaldssögunni Júlíana tæknivæðist, að Jói símvirki í Vík hefur ennþá ekkert látið sjá sig með nýja, fína og flotta ADSL (sko, rétt skammstafað) tenginguna mína. Ég fékk reyndar sent eitthvað appparat frá símanum og reyndi að tengja það sjálf í örvæntingu minni, en í ljós kom að apparatið það tarna var bilað (bilað við komu alltsvo en ekki vegna meðferðar minnar). Svo að eftir mörg, mörg símtöl við þjónustuver símans lofuðu þeir að senda formlega beiðni til Jóa sím., láta hann koma með nýtt apparat og tengja það fyrir mig. Þetta hafði víst ekki verið gert þegar ég pantaði ADSL tenginguna upphaflega; líklega hafa þeir gert ráð fyrir að ég væri annað hvort svo tæknivædd að ég gæti tengt þetta allt saman sjálf eða svo tæknifötluð að mér myndi duga að mæna á apparatið sjálft í lotningarvímu.

Í gær gerðist ég svo fræðimaður með meiru og ók út um allt plássið með þjóðtrúarkannanir í farteskinu og neyddi upp á grandarlausa íbúa þessa samfélags. Fór í sjoppuna, búðina og Kaupþing póst (sparnaðarráðstafanir í þessu plássi hafa leitt til sameiningar bankans og pósthússins). Til að kóróna fræðimannsheitin þurfti ég náttúrulega að gleyma bílnum mínum í búðinni og var gengin hálfa leið heim áður en ég fattaði það. Að þessu sinni held ég þó að enginn hafi tekið eftir þessu; ég gekk bara til baka eins og ég væri á hreinni skemmtigöngu og hefði einmitt skilið bílinn viljandi eftir á miðju Kjarvalsplaninu (og svona leikaraskapur er sko erfiður í plássi þar sem allir þekkja alla og vita allt um það hvaða bíl maður á). Annars held ég að þessi gleymska hafi ekki verið nein tilviljun, heldur skilaboð frá undirmeðvitundinni. Líklega var hún að reyna að segja mér að ég þyrfti nauðsynlega að fá mér nýrri og flottari bíl......

Ritgerðarskrif mín mjakast áfram á hraða snigilsins þessa dagana og eftir nokkra vikna barning er ég einungis komin á bls 10. Akkúrat núna er ég að klára að skrifa um samanburðarrannsóknir og hef rekist á vegg hinna torráðnu textatengsla. Og hef grun um að ég muni dvelja við þann vegg lengi, lengi........

Sunday, February 11, 2007

Flutt á vit ADLS draumsins

Nú er loksins farið að hylla undir það að bloggsíðan mín gangi í endurnýjaða lífdaga. Ef guð og Jói símvirki í Vík lofa, mun ég nefnilega fá ADLS tengingu eftir helgina, Skjá einn og fullt af öðru fíneríi. Til þess að fá allt þetta fínerí þurfti ég náttúrulega að yfirgefa hið notalega hreiður Syðri-Steinsmýri og flytja mig aðeins nær þéttbýlismenningunni. Ég er semsagt flutt aftur (í bili) í hið líflega þorp Kirkjubæjarklaustur, sem státar af kaffihúsi, hóteli, dýrustu matvöruverslun heims, elliheimili, heilsugæslustöð, bókasafni, grunnskóla, hreppsskrifstofu, sjoppu og sennilega ca 35 húsum, sem flest eru vandlega falin bak við ofvaxinn trjágróður garða sinna. Að vísu er kaffihúsið lokað á veturnar, sjoppunni skellt í lás klukkan 8 á kvöldin, og nánast ómögulegt að hitta á hreppsskrifsstofuna opna. En hverjum er ekki sama um það, hér er ADLS í boði og hægt að liggja á netinu alla daga, og svo góna á Skjáinn, óseiseijá.....

Það er kannski eins gott að nettengingarmál mín komist í lag fljótlega, því að síðustu helgi andaðist gsm sími minn saddur lífdaga. Hann var af gerðinni nokia 5110 og hafði þjónað eiganda sínum dyggilega í næstum áratug. Dánarorðsök hans var gin og tónik, sem hann mun hafa neytt síðla kvölds á þokukenndum bar einhverntíma eftir þorrablót þjóðfræðinema. Vaskur meðlimur flugbjörgunarsveitarinnar endurlífgaði hann reyndar að hluta til strax næsta dag með eldsspýtnaþræðingu, svo að nú má með harðfylgi hringja úr honum í öll símanúmer sem ekki innhalda 0. Sem þýðir það að ég mun ekki hringja í neinn sem hefur 0 í símanúmerinu sínu fyrr en ég kemst í bæinn með flotta, fína en læsta gsm símann sem ég keypti út í henni Ameríku í fyrra.

Þessa dagana er ég að kljást við að semja ráðsstefnuabstract á ensku, eftir því sem tími gefst til á milli hótelstarfa og ritgerðaskrifa. Þessi abstractsskrif mín eru reyndar soldið skondin í ljósi þess að ég er eiginlega ekki búin að ákveða hvort að ég ætla eða hreinlega kemst á ráðstefnuna, sem er víst á næsta ári (hvar var hún annars aftur og hvenær?). Og hvað þá heldur ákveða hvað ég ætla að reyna að tala um..... Svo að ég neyðist víst til að hanna kafloðinn abstract sem gerir mér kleift að tala um næstum því hvað sem er þegar á hólminn er komið. En þetta gengur bara hreint ekki vel, því að af einhverri ástæðu hefur enskunni minni hrakað svo mikið síðustu mánuðina að orðin 200 líta hreinlega út fyrir að hafa verið skrifuð af 5 ára barni. Og í ferlinum hef ég rekið mig á mjög alvarlega orðabókavankannta; þær gefa þér upp hrúgu af einskis nýtum skammstöfunum en þegja svo þunnu hljóði um það hvernig eigi að skammstafa orðið t.d. á ensku. Svo að ég auglýsi hér með eftir þeirri skammstöfun í von um að einhverjir hafi ekki gefið lestur þessarar bloggsíðu upp á bátinn þrátt fyrir hinar löngu og þrúgandi þagnir.......

Annars er það helst að frétta hér úr þessari sveit að um sig hefur gripið mikið framkvæmdarfár sem lýsir sér í því að hótel spretta hér upp eins og gorkúlur um allar sveitir. Sem er náttúrulega fín mál (fleiri barir í þessa sveit, já takk), en kallar á nokkrar vangaveltur um það hverjir eigi eiginlega að starfa á öllum þessum hótelum. Ég hef eiginlega minni áhyggjur af því hverjir eigi að gista þau, hér er jú hægt að selja hvert einasta gistirými 10 sinnum hvern dag frá byrjun júní til ágústloka. En þetta eru allt saman bara sumarstörf sem í flestum venjulegum bæjarfélögum eru mönnuð með skólakrökkum í sumarfríum. Og þetta er nefnilega samfélagshópur sem er eiginlega bara ekki lengur til í þessari sveit. Bekkirnir í grunnskólanum eru komnir niður í 3-5 nemendur og fátt sem bendir til fjölgunar í fyrirsjáanlegri framtíð. Svo segir að minnsta kosti gamall maður hér í sveit sem tilkynnti mér áhyggjufullur um daginn að í öllum hreppnum væru einungis 18 konur í barneign. Og samt taldi hann mig allra náðugsamlegast með, þótt að ég væri nú hálfgerð geldkona!......(Þýðing: Búin að pipra lengi, alveg að komast í kaskó og ekki líkleg til stórafreka á fjölgunarsviðinu í millitíðinni). En ég held nú samt að þetta sé eitthvað vantalið hjá honum, þetta getur bara ekki verið svona slæmt.

Tuesday, January 09, 2007

Nú er frost á fróni

Ég held að nýji internet explorerinn minn, sem microsoft hlóð niður á mig bakdyrameginn og algerlega án míns samþykkis meðan ég var að berjast við að laga vírusvörninga mína, flokki bloggsíðuna mína sem annað hvort klám eða ríkisleyndarmál. Allavega harðneitar hann mér um að sjá mína eigin síðu og innskráningarsíðuna hjá blogger.com. Þetta kallar náttúrulega á símahjálp frá tölvugúrú fjölskyldu minnar, hana Ellu systir, sem væntanlega hefur kippt þessu í liðinn ef þið eru að lesa þetta.

Annars er fátt að frétta úr sveitinni, hér gerist náttúrulega aldrei neitt sem segja má frá.......

En til að fylgja eftir bíladramanu mikla frá því fyrir jól, þá er bíllinn núna kominn í þokkalegt stand, það var svo mikið sem öxulliður og hjólalega sem brotið var, eða svo segir að minnsta kosti á reikningunum himinháa. Sennilega hefði verið best að henda bara bílnum og kaupa nýjan og næst þegar hann bilar á skynsamlegum stað og tíma mun það alveg örugglega gerast. Annars er ekkert annað að gera núna en að keyra þann gamla út svona til að fá upp í viðgerðina........Nema ég náttúrulega strauji fleiri blindhæðarskilti með hliðarspeglunum í millitíðinni eða fari í óvænta flugferð á honum út í Skaftáreldahraunið, hver veit?

Annars er svo mikill brunagaddur þessa daganna hér fyrir austan að allt er freðið, bílar, hús og fólk. Þannig hef ég þurft að brjótast inn í bílinn minn með aðstoð hárþurrku síðustu daga og stutt stopp á verkstæðinu í dag leiddi í ljós að það sem ég hélt að væri kannski fleiri brotnir öxulliðir var í rauninni bara beinfrosinn dempari (ok, smá móðursýkiskast). Og einhvernmeginn smígur kuldinn inn í húsið líka (útidyrahurðin var frosin aftur í morgun) svo að maður er hreinlega krókloppinn og með sultartár í nefinu allan daginn. Ég er ekki frá því að heilinn sé svolítið freðin líka, það er alla vega búið að taka mig marga daga að berja saman nýrri kaflaskiptingu, skipulagi og beinagrind fyrir MA ritgerðina mína. Ef hraði minn við ritgerðina sjálfa verður með þessu móti mun henni ljúka einhverntíma síðla árs 2010.....Já, illt er að vera karlmannslaus í kulda og trekk og geta ekki einu sinni iljað á sér tærnar á hundum........En það góða við þetta allt saman er nú það að ég er skyndilega næstum hætt að reykja, enda allt of kalt til að fara út í smók.

Eftir næstu helgi ætla ég að leggja veg undir dekk og flýja kulda, karlmanns og hundaleysi sveitarinnar. Ég kem semsagt til Reykjavíkur á mánudaginn næsta (þann 15. jan) og ætla verða þar til föstudags við ýmislegt grúsk og heimildaleit í Árnastofnun. Nema náttúrulega á kvöldin, sem verða frátekin fyrir félagslíf af ýmsu tagi, þ.e. ef áhugi fyrir slíku reynist vera fyrir hendi meðal malbiksvina vorrar........

Wednesday, December 20, 2006

Klaustur-Selfoss, not express

Tilgangur ferðar: Að sækja Pálu systir á Selfoss

Áætlaður komutími á Selfoss: kl 13:30
Áætluð heimkoma: kl 18:00

Kl: 11:30-12:00: Bíllinn bilaður við Kerlingardalsá á Mýrdalssandi. Sjúkdómslýsing: er alveg stjórnlaus, út og suður á veginum og eitt dekkið pikkfast. Viðbrögð mín: Drep á bílnum og hringi í mömmu. Greining mömmu: Það er farin lega eða steinn í bremsuskálinni. Viðbrögð við upplýsingum: farið út í mígandi óveður og öll dekk hrist. Niðurstaða: Öll dekk pikkföst og þar sem þau eiga að vera.

Kl: 12:00-13:30: Ekið varlega áfram til Víkur og bifvélavirki í hádegismat fundinn í Víkurskála. Sjúkdómsþróun: Bíll virtist alveg í lagi þennan spöl til Víkur. Viðbrögð Bifvélavirkja: Kláraði matinn sinn og athugaði síðan bílinn. Greining bifvélavirkja: Kvenleg móðursýki. Viðbrögð við upplýsingum: Ekið áfram áhyggjulaust. Kostnaður: 1000.

Kl: 14:00: Pála systir soldið stressuð á Selfossi......

Kl: 14:00-14:30: Bíll aftur bilaður, að þessu sinni við Markarfljót. Sjúkdómslýsing: Alveg stjórnlaus, út og suður á veginum, ýl og væl og eitt dekkið pikkfast. Viðbrögð mín: Drep á bílnum, tékka á dekkjafestingum, reyki ca 3 sígarettur og hringi aftur í mömmu. Ráð mömmu: Engin að þessu sinni, en ansk. gott að heyra röddina.....Niðurstaða: Að hvíla bílinn áður en haldið er áfram.

Kl 14:30-16:00: Bíll höktir inn á Hvollsvöll með látum og allur út og suður á veginum. Viðbrögð mín: Að leita uppi bifvélaverskstæði númer 2. Viðbrögð bifvélavirkja: Skaffa kaffi og líta á bílinn ca klukkustund seinna. Greining bifvélavirkja: Kvenleg móðursýki. Viðbrög mín við upplýsingum: Megn vantrú sem kallar á reynsluakstur. Niðurstaða reynsluaksturs: Allt virðist í lagi. Kostnaður: 1000.

Kl. 16:00: Pála systir alveg að tapa sér á Selfossi.....

Kl. 16:30-17:00: Bíll enn og aftur bilaður, út og suður á veginum og lætin aldrei meiri. Viðbrögð mín: Reykja margar, margar sígarettur meðan bíllinn hvílir sig aðeins. Niðurstaða: Keyrt varlega áfram á Selfoss og stoppað á 5 mín. fresti til að hvíla bílinn.

Kl. 17:30. Komið inn á Selfoss, bíllinn ennþá bilaður. Pála er pikkuð upp og svo fundið bifvélaverkstæði númer 3. Sjúkdómslýsing mín: Bíllinnminnskopparútogsuðureittdekkiðerfastogþettakemurogfersvoþegarégdrepáhonumenkemuraftureftirþrjátíukílómetraaksturogþettaerþriðjaverkstæðiðsemégstoppaáenafþvíaðégerkonaerégnáttúrulegabaraafskrifuðsemmóðursjúkhikkssst. Ástand mitt: Algerlega móðursjúk, hárið í óreiðu og geðveikisglampi í augunum. Viðbrögð bifvélavirkja: Múhahaha. Greining bifvélavirkja: Það er brotinn öxuleitthvað. Niðurstaða: Bíll kyrrsettur á Selfossi fram á föstudag meðan skipt er um þetta öxuleitthvað. Kostnaður: liggur ekki fyrir en verður örugglega mikill.

Kl. 18:00: Leigður bílaleigubíll á Selfossi. Gallar: Er af tegundinni Fiat Panda, á stærð við hjólastól, hæggengari en Flintstone bíllinn og valtari en rúlluskautar. Veður: Ca 20 metrar á sekúndu og öskrandi rigning. Hámarkshraði bíls: Kemst í 80 undan vindi. Ástand rúðuþurrka: Afar lélegt. Kostnaður: 11000 + ?

Kl: 22:00. Hjólastóllinn rennir í hlaðið á Syðri-Steinsmýri.

Kl: 22:30. Tekið úr þvottavél. Sjúkdómsgreining: Hvíti þvotturinn er bleikur. Orðsök: Appelsínugulur laumufarþegi. Niðurstaða: Lífið er fjandans tík og síðan drepst maður bara........

Saturday, October 14, 2006

Ég er sko komin heim fyrir lifandis lögnu....

Halló Ísland, ég er sko löngu kominn heim og ekkert á leiðinni lengur. Ég hafði bara enga nettenginu í sumar og síðan engann tíma í haust. En nú stendur þetta allt til bóta og ég ætla að reyna að blogga bara nokkuð reglulega yfir hvítvínsglasi það sem eftir lifir vetrar. Sem er reyndar víðsfjarri þessa stundina sökum þess að ég er í vinnunni og sit yfir syngjandi fullum Íslendingum í stað þess að drekka sjálf. Ömulegur hlutur að gera á laugardagskvöldi en svona er lífið. Annars hefur öll vikan farið í að þræla mér í gegnum efni vikunnar í rannsóknum í þjóðfræði. Mér reiknast til að ég hafi farið í rúmmið í vikunni með 7 karlmönnum og einni konu, þeim Oring, Goldstein, Motz, Eskeröd, de Certeau, Bourdieu og Bascom.

Annars finnst mér athyglisvert að í þessum áfanga er ég búin að lesa alls 50 texta eftir karlmenn en einungis 9 eftir konur (þar af ca helmingur eftir sömu konuna). Sem mér finnst skrítið því að mér finnst ekki vera þverfótað fyrir konum í þjóðfræðinni. Ætli þær séu svona slappar við að gefa út? Eða er það bara svona óáhugavert sem þær eru að gera? Og þá að mati hvers? Hver skildi ráða þjóðfræðiparadigmanum sem stjórnar því hvað er áhugavert og hvað ekki og hvað eigi að flokkast undir fræðigreininga þjóðfræði og hvað ekki?

Já, lífið skilur mann eftir með margar ósvaraðar spurningar.