Súpermannsjón og fleira
Jæja, þá er víst best að blogga þar sem það er fimmtudagskvöld og ég á ekki að vera neinstaðar. Sem er bara alveg ágætt. Ég er nefnilega að jafna mig eftir aðra umferð í hinum margfræga Baush and lomb LASIK þeirra Bandaríkjamanna frá síðasta þriðjudegi. Sem að þessu sinni virkaði bara svakalega vel, svo að núna sé ég nánast í gegnum veggi.....eða þannig. Ég varð hreinlega smeik þegar ég vaknaði á miðvikudagsnóttina og gerði mér grein fyrir því að ég sá herbergið mitt í myrkrinu......mjög skrítin tilfinning.
Ferðin til San Hose var nokkuð ævintýraleg, ég leigði bíl og fékk Klaus og Torbein (þýskir) til þess að keyra mig þangað. Aðgerðin tók mjög stuttan tíma, aðeins nokkrar sekúndur. Pappírsvinnan fyrir aðgerðina tók hinsvegar mun lengri tíma, eða ca 1 klukkustund. Mér leið bara nokkuð vel eftir aðgerð, enda hafði góðviljuð hjúkka gefið mér góðan slurk af valíum (rosagott). Svo að við ákváðum að taka löngu leiðina heim, þ.e. Stanford veginn og strandlínuna. Sem var nokkuð skrautlegt sökum þess að Klaus keyrði og T0rbein var á kortinu..... Og þeir rifust mikið á öllum gatnamótum. Svo að við tókum ca klukkustundar hliðartúr inn í fjalllendi sem vel hefði sómt sér í Stephen King sögu; vegurinn varð sífellt mjórri og landslagið óraunverulegra. Og ekkert fólk. Þetta var svona middle of no were. Og komum síðan út á aðalgötuna aftur eftir klukkustundar akstur á nákvæmlega sama stað og áður......Ójá, guði sér lof fyrir valíumið... sem gerði það að verkum að ég sat bara brosandi í aftursætinu allan tíman sem strákarnir þrösuðu um réttar og rangar áttir og óku í gegnum aðrar víddir...
En annars er mest lítið að frétta þar sem lítið er gert annað en reynt að læra þessa dagana. Á föstudaginn síðasta var þó haldið grímusamkvæmi hér í húsinu. Ég stoppaði heldur stutt við, þar sem ég hef þessi síðustu misseri verið með afbrigðum kvöldsvæf og félagsfælin. Svo að það voru engar svaðilfarir þessa helgina og engar gólfviftur og grikkir.....
Á laugardaginn skrapp ég síðan út að borða þar sem Burhaim (tyrkneskur) átti afmæli. Sökum þráðláts höfuðverkjar fór ég heim að loknum málsverði og beint í bólið. Ég hrökk hinsvegar upp um tvöleytið við hávært og margraddað sírenuvæl sem virtist nema staðar fyrir utan I-house. Frétti það síðan daginn eftir hvað hafði skeð; stúlka hér í húsinu reykti víst slæma jónu og tók paranoju kast með þeim afleiðingum að einhver hringdi eftir aðstoð. Og af því að þetta eru Bandaríkin mættu á svæðið tveir sjúkrabílar, nokkrir lögreglubílar og svo tveir slökkviliðsbílar en hér um slóðir mæta þeir alltaf með öllum hinum, svona rétt til öryggis. Semsagt, ys og þys út af engu, því að stúlkan var víst komin í ágætis stand þegar hersingin mætti...
Mér þótti mjög vænt um að fá tillögur að póstmódernískum orðaþýðingum í síðustu viku (takk Eydís). Hér koma orð þessarar viku sem að þessu sinni eru tekin beint upp úr grein sem ég er að lesa.
1. Heteroclite nature
2. Proliferation
3. Heuristic value
4. Vertically
5. Didactic
Ojá, póst módernískir málfræðingar eru alger snilld. En gaman væri að fá komment á þetta ef orðin hringja einhverjum bjöllum.
Þorrablót og fleira
Ég biðst innilega afsökunar á langri þögn undanfarið. Ástæðan er sú að það hefur bara verið svo óskaplega mikið að gera í skólanum að ég hef bara ekki haft tíma til að skrifa. Það tekur nefnilega sinn tíma að blogga þegar maður þarf að fara með tölvuna á kaffihús til að komast í netsamband. Og síðan að ná borði nálægt innstungu, eða bara borði yfir höfuð. En núna er I-house kaffið næstum því mannlaust þar sem yfir stendur tælenskt coffee hour í byggingunni sem fækkar samkeppnisaðilum mínum um borðin verulega.
Það er fyrst að frétta frá mér að gervineglurnar eru farnar. Fyrir ca viku síðan tóku þær upp á því að fljúga sjálfviljugar í braut frá fingrum mínum. Flugu bara í burtu, ein af annarri.... Og stundum við furðulegasta tækifæri, svo sem við kvöldmatarát. Ég vona bara að enginn hafi borðað einhverja þeirra með kvöldmatnum.... En ég hef komist að þeirri niðurstöðu að gervineglur þeirra Bandaríkjamanna séu af hinu svokallaða stökkafbrigði. Og mig grunar að þær hafi kannski birst aftur á snyrtistofunni....
Það er mikið álag í náminu um þessar mundir sem útskýrir kannski hinar löngu þagnir á þessari síðu. Auk þess að vera í þremur nokkuð krefjandi áföngum er ég að undirbúa fyrirlestur fyrir stóru Western-folklore Society ráðstefnuna í apríl, hann verður um ævintýri (AT 451, svona fyrir ykkur þjóðfræðingana) og Bengt Holbek kenninguna. Auk þessa samþykkti ég víst að kenna einn tíma hér í Scandinavíudeildinni, áfanginn er um Njálu og ég á semsagt að fara ofan í saumana á þjóðfræðilegu gildi Njálu. Svo að nú er ég að lesa mér til um allt sem lýtur að Njáluþjóðfræði. Þau vilja víst fá að vita hversu mikið er satt í henni.......huhm, erfitt að áætla. En ég er viss um að mér leggst eitthvað til.
Annars er ég að vinna að því að koma mér upp íðorðalista fyrir póst módernískuna hans Briggs. Og ætla að reyna að gera það að reglu að birta þrjú orð í hverju bloggi og óska eftir tillögum að íslenskri þýðingu. Orð bloggsins að þessu sinni eru þessi:
1. Vernacular
2. Commodification
3. Governmentality
Og getið þið nú.
Annars gerði ég einkum tvennt mér til ánægju og yndisauka frá því að ég bloggaði síðast fyrir tæpum hálfum mánuði (er virkilega svona langt síðan ég bloggaði síðast?). Þarsíðasta laugardag ákvað ég að láta eftir mér heilan frídag og skrapp með Astrit (frönsk) í verslunarleiðangur til San Fransisco. Þar sem við ætluðum einnig að nota ferðina til þess að skoða næturlífið, ákváðum við að leigja okkur hótelherbergi og gista um nóttina. Við fundum herbergi fyrir 50 dollara, herbergið var bara nokkuð hreint og við sáum bara einn kakkalakka. Sem var nokkuð gott því að í fyrsta herberginu sem við skoðuðum á hótelinu voru þeir skríðandi upp um alla veggi (ojj). En um kvöldið mættu Torbein (þýskur), Burhaim (tyrkneskur) og Jeimi (costa ríkastur) á svæðið of við fórum í einhvern þann leiðinlegasta næturklúbb sem ég hef nokkurntíma komið í. Ójá, átti víst að vera svakalega fínn og flottur, en dansgólfið var hrein hörmung, tónlistin mjög einhæf og leiðinleg, það voru engin sæti og skrítið fólk gangandi um með nefið upp í loftið. Ég mun sko áreiðanlega ekki fara aftur í þennan klúbb.
Síðasta laugardag var síðan þorrablót Íslendinga á Flóasvæðinu, og að sjálfsögðu mætti ég ásamt L.H.F.Í.Í.B. (Leynifélagi hinna földu Íslendina í Berkeley). Þetta þorrablót var haldið í Suður-San Fransisco í einhverjum veislusal. Mætingin var bara nokkuð góð, ca 150 manns, stór hluti þeirra reyndar 2. eða 3. kynslóðar Ameríku-Íslendingar. Mér hafði hlakkað mikið til að fá loksins súrmat, en því miður hafði sá ágæti matur ekki fengið náð fyrir augum Amerískra tollayfirvalda. Súrmaturinn var semsagt fastur í tollinum, aðeins fiskurinn og sviðasultan sluppu í gegn en ekki kjötréttirnir. Sviðasultan gengur hér undir heitinu Head cheese, eða hausaostur, og mun það hafa slegið ryki í augun á Ameríska tollinum. Svo að við borðuðum nýskjálenskt lamb á íslensku þorrablóti og gerðum það ekki ógrátandi.....En hljómsveitin var bara nokkuð góð miðað við að samanstanda af tveimur miðaldra Íslendingum með skemmtara.