Tuesday, October 25, 2005

Danskir piparsveinar, háhýsaklúbbar og hrekkjavaka framundan

Jæja, komin á kaffið og með rauðvínsglas að þessu sinni, hvítvínið var búið. Síðasta vika hefur verið vægast sagt annasöm, svo slæm að ég hef hreinlega ekki haft tíma til að greiða mér á morgnanna, hvað þá að púðra á mér nefið. Of hef fyrir vikið títt verið spurð að því hvort ég sé nokkuð lasin.....? Já, ég er föl án púðursins.

Ástæðan þessu sinni er sú að ég hef verið að streða við að greina 19. aldar efnisskrá í einum áfanganum mínum, sú liggur eftir danskan piparsvein, Peter Johansson að nafni. Og ég hef sko streðað og streðað við að sortera sagnirnar hans og reyna að búa til einhverjar kenningar um hann og samfélagið í Skanderborg. Og fundist allan tíman að ég væri sennilega ekki nógu góð, og allir hinir hlytu að standa mér miklu framar í áfanganum (eins og venjulega). Ég átti að flytja fyrirlesturinn í dag en hann frestaðist fram í næstu viku þar sem fyrsta efnisskráargreiningin dróst nokkuð á langin. Þessi fyrsti efnisskráarfyrirlestur tók þó úr mér skelkinn, þar sem það rann fljótlega upp fyrir mér að samnemendur mínir hafa sennilega aldrei séð efnisskrá áður né gert tilraun til að greina hana með nokkrum hætti. Þetta er munurinn á skandinavískri þjóðfræði og þeirri amerísku í hnotskurn; Við erum að streða við að greina gögnin og vinna úr þeim einhverjar kenningar meðan þau eru að lesa kenningar fræðimanna um það hvað sé þjóðfræði, hvernig eigi að skilgreina hitt og þetta og svo framvegis. Þessvegna eru þau svona fjandi góð í því hver skrifaði hvað og hvaða merking stendur að baki hugtökum eins og genre, metafolklore, narrative schemes og fleira sem ég skil aldrei fullkomlega. En sjáum til hvernig fer í næstu viku og hvernig mér gengur að skila frá mér Peter Johannsson á engilsaxneskri tungu......

Annars hefur fátt skemmtilegt gerst á síðustu dögum. Ég skrapp þó til San Fran á fimmtudagskvöldinu og leit við í klúbbi sem kallaður er The top of the mark og er til húsa á efstu hæð á háhýsa hóteli. Var sagt áður en ég fór að þetta væri nokkurskonar tískuklúbbur og ég þyrfti því að vera settlega klædd. Fór í kjól (já, ég á einn), og leið eins og Mary Poppins þegar í klúbbinn var komið þar sem flestir viðstaddra voru í gallabuxum........Skemmti mér samt þokkalega vel, hitti skemmtilegan náunga frá Indiana sem tilkynnti mér strax að hann ynni í Wells Fargó bankanum......Hafði víst hitt einhverja fyrirsætuna sem þarna voru á sveimi og sú hafði tekið til fótanna þegar hún komst að því að gaurinn væri svo fátækur að hann þyrfti að vinna fyrir sér......Já, þetta er harður heimur. En kvöldið endaði klukkan 01 þegar ein af ferðafélögunum varð illa veik (peðölvuð), og þurfti að komast heim ekki seinna en strax. Sem var alveg í lagi þar sem skemmtilegi gaurinn frá Indiana var farinn heim.....En það var meiriháttar mál að komast heim til Berkeley, þar sem fyrsti leigubíllinn sem við tókum henti okkur út á fyrsta götuhorni sökum hræðslu við að sú ölvaða ældi. Svo við döguðum uppi þrjú á götuhorni í San Fran með þá veiku (peðölvuðu) hálfrænulausa. Ævintýrið endaði síðan lukkulega, þar sem ég gómaði annan taxa og bauð honum 30 dollara aukalega ef sú rænulausa ældi.... sem hún gerði ekki, mér og veskinu mínu til mikillar gleði.....og við komumst heim á endanum.

Næsta mánudag rennur upp stór stund hér í Ameríku. Þá er Hrekkjavaka sem mér hefur skilist að sé mjög merkilegt fyrirbæri. Ég borðaði með nokkrum af skólafélögum mínum í dag, og þá kom upp sú hugmynd að skreppa í hverfi í San Fran á mánudagskvöldið sem er kallað Castro og er víst hommahverfi borgarinnar. Þar ku allt um koll keyra á hrekkjavöku og þar má víst sjá alla bestu búninga borgarinnar. En þetta kallar víst á það að ég verði mér út um búning......Og ég lýsi hér með eftir tillögum.......

Monday, October 17, 2005

Lífsmark

Nei, nei, ég er ekki dáinn, bara búin að standa í mjög ströngu í náminu. Sem hefur ekki skilið eftir neinn tíma fyrir hvítvín og blogg. En nú er þessum álagspunkti lokið, því í þessari viku er stór þjóðfræðiráðstefna í Atlanta og því engin kennsla út vikuna. Sem er mjög gott því að næsta vika verður botnlaus törn, framsaga í þarnæstu viku og svo eru það náttulega alllar ritgerðirnar sem enn eru óskrifaðar......

Í síðustu viku setti Briggs allt á annan endan hjá mér með því að skella á mig óvæntu aukaverkefni. Þetta var eiginlega eins og þjóðsagan af Sæmundi Fróða, þessi sem fjallar um námsárinn hans í Svartaskólanum í Sorbonne.......Fyrir þá sem ekki hafa heyrt hana er hún í stuttu máli einhvernmegin á þessa leið og í nútíma útgáfu:

Satan hirðir ávallt þann síðasta sem yfirgefur Svartaskóla. Þar kemur að Sæmundur verður fyrir því óláni að verða síðastur út. Og Satan segir: hah, nú tek þig. En Sæmundur hefur að sjálfsögðu ráð undir rifi hverju, bendir Skrattanum á skuggan sinn og segir honum að þessi gæi sé sko síðastur en ekki hann. Og skrattinn hirðir skuggann og eftir það var Sæmundur skuggalaus.

Ójá. Og síðasta miðvikudag var ég síðust út úr kennslustofunni, sem þýddi það að Briggs greip í öxlina á mér og sagði: Mér finnst að þú ættir að tala um Íslensku fornritin í næsta tíma út frá textum vikunnar, Herder og þjóðernisrómantíkinni. Ég var næstum því búin að segja: Nei, Nei, taktu frekar skuggan minn.......En kennnarar eru kennarar svo að auðvitað sagði ég bara já. En ef ég kem heim skuggalaus, þá vitið þið hvað gerðist.......

Tíminn hjá Briggs var annars færður frá miðvikudegi til mánudags vegna ráðstefnunnar. Sem þýddi það að í dag hóf ég upp raust mína og talaði um íslensk fornrit, Herder, Herzfeld og þjóðernisrómantík. Og skoraði alveg feitt....og notaði fullt af orðum eins og taxinomy, authenticity, purportedly homogeneous.......Já, þetta var hreinasta orðníð......en ég sá að ég fékk langa línu á blaðinu dulafulla sem maðurinn krassar á þegar við stynjum einhverju upp í tímum. Sem ég vona að sé gott.......

Félagslífið hefur verið með daufasta móti upp á síðkastið, sem er kannski eins gott vegna vinnuálagsins......Brá mér þó í salsaklúbb einn síðasta miðvikudag með það fyrir augum að æfa þau örfáu spor sem mér tókst að læra á námskeiðinu góða í upphafi dvalar minnar í I-húsinu. Þegar í klúbbinn var komið sá ég að allir dansararnir á gólfinu voru í allt öðrum og betri gæðaflokki heldur en ég..........Svo að ég ákvað að tilla mér á barinn meðan fólkið sem ég fór með tók nokkrar sveiflur á gólfinu. Við hliðina á mér á barnum sat eldri herramaður sem kynnti sig sem Oskar og mun vera frá Guatemala. Ef þið hafið séð kvikmyndina Guðföðurinn, þá leit maðurinn eiginlega út eins og guðfaðirinn í þeirri ágætu mynd. Þessi ágæti en mafíulegi maður tók upp á því að kaupa einhver ósköp af drykkjum handa mér....sem ég kurteislega reyndi að afþakka með litlum árangri.....drakk nokkra fyrir kurteisis sakir.......og var bara þó nokkuð slompuð þegar félagar mínir gáfust upp á að dansa og við fórum heim. Maðurinn bað um símanúmerið hjá mér og ég reyndi að gefa honum rangt númer (skrifaði 4 eins og níu og fleira sem gæti bara verið slæm skrif ef ég skyldi einhverntíma rekast aftur á manninn....). Eins og ég sagði var ég nokkuð slompuð og þegar ég kom heim fékk ég símtal frá náunganum........sem var ekki gott....eitthvað hafði greinilega farið úrskeiðis.....Svo að núna svara ég bara ekki í síman ef að ég þekki ekki númerið. Og ég ætla sko aldrei að fara í þennan salsaklúbb aftur....

Saturday, October 08, 2005

Sætar löggur, ástleitni, búllur og lærdómur

Ég bara gat ekki stillt mig um að blogga þótt það sé bara laugardagskvöld hér í Berkeley og ekki vika liðin frá síðasta bloggi. Það situr nefnilega svo myndalegur lögregluþjónn við borðið mitt og ég tími bara ekki að standa upp. Birtist bara í fullum skrúða og spurði hvort hann mætti deila borðina. Og auðvitað sagði ég já, enda alltaf verið veik fyrir myndalegum mönnum í flottum einkennisbúningum.

Það hefur annars verið lítið um að vera hjá mér síðan ég bloggaði síðast, enda hefur lesturinn þessa vikuna verið óheyrilega mikill. Mér endist varla vikan til þess að klára að lesa allt sem ég á að lesa hverja viku og hef ekki haft neinn tíma til að hugsa um ritgerðirnar sem ég á að skrifa. Þetta er Ameríska skólastefnan í hnotskurn, lesturinn er svo mikill að maður bara rétt nær að skrolla yfir allt saman og meðtekur ekki neitt. Þetta er bara eins og að opna hverja skúffuna á fætur annarri, rétt kíkja ofan í hana og síðan skella henni aftur......

Ég afrekaði það að fara tvisvar sinnum út í vikunni sem er bara nokkuð gott. Á þriðjudagskvöldið, eftir að hafa bloggað (í gremjuflensu og með heimþrá eins og þið kannski munið), hitti ég Bilal (Pak) og Johannes (Þýs). Við ræddum um þetta vandamál að passa ekki alveg inn í umhverfið. Bilal er sá eini frá sínu landi hérna eins og ég og Johannes er aðeins 23 ára og passar því engan vegin inn í þjóðernið sitt, þar sem hinn venjulegi þjóðverji hérna er ca 29-30 ára(Þetta fannst mér fyndið). En mitt vandamál er hinsvegar ekki aðeins það að ég er eina manneskjan frá mínu landi hérna, heldur er ég einnig af vitlausu kyni, þ.e. það eru bókstaflega engar aðrar konur hérna á mínum aldri (og afar fáar konur yfir höfuð í húsinu). Og karlarnir eru sko ekkert grín......Voða vinalegir en.......sko þegar maður er búin að kynnast þeim aðeins eiga þeir það til að verða svolítið.......tja, já.....ástleitnir. (Ræddi þetta vandamál við Scott í gær, sem hefur lýst því yfir að ég allt of gömul fyrir hann sem gerir hann að skásta ráðgjafanum sem ég hef á að skipa hérna. Hann rakti þetta allt saman til veraldarleiksins góða sem ég útskýrði um daginn, þ.e. Ísland skorar feitt á listanum). Annars eru hérna tvær danskar stelpur ca 28 ára og ég er mikið að spá í að fara að sitja um þær og reyna að kynnast þeim betur...... Ég er nokkurn megin viss um að a.m.k. önnur þeirra drekkur bjór af og til.....Og ég virkilega þarf á pásu að halda frá karlkyns félögunum í húsinu.

En aftur að þriðjudagskvöldinu. Bilal, Johannes og ég ákváðum að skreppa á bar og spila pool. Því miður reyndist barinn vera að loka þegar við komum þangað, svo að Bilal ákvað að sýna okkur mestu búlluna í Berkeley. Þetta reyndist vera ponsulítill bar með bakgarð, en státaði þó af því að hafa einar 12 bjórtegundir.

It was shit!(biðst velvirðingar á þessu, Scott komst í tölvuna, sæta löggan farinn og frekur breti kominn í staðinn). Sp - this is Scott back again - Juliana´s been up to no good this week. I´ve promised her that I wouldn´t go into any of the specifics - well, that´s what I told her while I was wrestling this computer off her, but the point is that she´s been up to no good. And that´s great! Everyone here finds her highly amusing. I mean, most of the Yanks don´t even know where Iceland is, let alone have they ever met anyone from there. Except one or two who are able to recognise her from a great distance by the fact that she´s as pale as Björk. I personally would like to see her down the karoake bar, but she´s threatened violence every time I´ve suggested such a thing. Oh well... maybe next life-time.

Jæja, þetta var Scott aftur. Hann var víst að koma heim frá 4 klukkustunda bjórdrykkju. Læt þetta bara standa. En hvar var ég.....Já mesta búllan í Berkeley.....Það var aðeins eitt klósett og ekki hægt að læsa því. Þetta hafði það í för með sér að strákarnir tóku að sér að standa vörð í hvert skipti sem ég þurfti að nota baðherbergið. Sem mér fannst nokkuð skondið því að þeir gerðu þetta alveg óumbeðnir og ég er nú ekki alveg svona fín með mig......enda Íslendingur og öllu vön í salernismálum. Aðrir viðskiptavinir barsins samanstóðu af afar óhreinum manni með eigur sínar á bakinu, og 5 afar einkennilegum einstaklingum(sem allir voru með pinna á mjög skrítum stöðum, með legghlífar, hnúajárn og gott ef ég sá ekki bara gulltennur líka). Síðan birtist afar sérkennilegur maður með næstum því engar tennur og mjög skrítna hárgreiðslu. Hann skilgreindi sig sem trompetleikara, talaði óskaplega tilviljunarkennt(random speaking á engilsaxnesku), og hafði spilað á götuhornum í Texas, New Orleans, Þýskalandi, Englandi og mörgum fleiri löndum. Talaði mikið um matónu sem hann hafði hitt í New Orleans, spilað fyrir og eitthvað fleira...Mjög sérkennilegur maður...En Bilal lét hann giska á hvaðan við værum og þegar kom að mér kom frá kauða: God damm if she has´nt got the same pale nose that Björk has....Strákunum fannst þetta frekar fyndið, og sagan flaug sem kannski útskýrir kálsúluna frá Scott hér að ofan.

Á fimmtudaginn fór ég á einhverskonar bjórkvöld hjá þjóðfræðinni hérna í Berkeley. Við hittumst á nokkuð góðum kokteilbar að þessu sinni þar sem við vorum hreinlega of mörg til að passa inn á venjulega barinn(sem er Triple rock, afar erfitt að fá borð). Drakk fullt af kokteilum, sem voru afar ódýrir og mjög vel útilátnir.... Vildi að ég gæti munað hvað þessi bar hét....En ég átti áhugaverðar samræður við hina þjóðfræðinemana um allt lesefnið hérna úti.....sem lyktuðu með því að þau spurðu stóreygð: Ert þú virkilega að reyna að lesa allt fyrir hverja viku? Ertu brjáluð? það reynir sko enginn og kennararnir gera ekki ráð fyrir að allir lesi alla textana, þessvegna eru þeir svona margir.....Ojá, þar hafði ég það. Svo núna ætla ég bara að lesa það sem skiptir máli fyrir ritgerðirnar mínar og bara rétt skanna restina......

Tuesday, October 04, 2005

Alvarlegur knússkortur, en það má alltaf versla

Jæja, nú er ég enn einu sinni komin með hvítvínsglasið góða, en að þessu sinni ber ekkert á alþjóðlegu drykkjumönnunum sem venjulega umkringja mig þegar ég er að blogga á I-house kafffinu. Ástæðan er sú að nú standa yfir miðsvetrarpróf hér í Berkeley og flestir sitja sveittir við að lesa. En ekki hún ég, því að ég tek engin próf, skrifa bara fullt af ritgerðum og tala þessi lifandis ósköp alla önnina(það er víst kallað presentation).

Síðasta laugardag var ég gripin alveg hreint hrikalegri heimþrá. Hugsaði þessi lifandis ósköp um lífið og tilveruna meðan mér leiddist alveg hreint óskaplega. Helgarnar hérna eru bara alls ekki svo skemmtilegar. Ég geri í rauninni aldrei neitt um helgar hérna. Það er í rauninni aðeins þá sem ég finn virkilega fyrir því að vera eini Íslendingurinn á staðnum......það er svolítið eins og maður eigi bara fullt af kunningjum en enga alvöru vini. Um helgar eiga nefnilega þjóðernin það til að rotta sig saman og gera eitthvað skemmtilegt......og ef manni er boðið með gerist það 2 mínútum áður en allir eru að fara, svona ef maður rekst á hópinn. Með öðrum orðum er maður aldrei partur af planinu.....Enginn sem bankar hjá manni og segir: við erum að fara þetta klukkan þetta viltu koma með? En kannski er þetta bara óhjákvæmilegt þegar maður býr á 8 hæð og lyfturnar eru alltaf bilaðar. Ég veit að þetta er ekkert til að velta mér upp úr......en sem íslendingur er ég bara vön því að vera stillt virka daga og djamma um helgar......Æjá, og ég sakna þess líka að fá aldrei knús......gott almennilegt íslenskt knús....eftir marga bjóra. Annars er ég sko búin að kaupa mér flug heim um jólin, mæti á klakan þann 15. des og vænti þess að fá fullt af bjór og mörg knús.

En nóg af væmni, hver í fjandanum þarf vini og knús þar sem er skítódýrt að versla? Á sunnudaginn ákvað ég semsagt að skreppa til San Fransisco og versla í tilfefni þess að gengi dollarans var lágt, aðeins ca 62 krónur. Ákvað meðal annars að skreppa i Viktoriu secrits. Ég hafði komið þangað einu sinni áður en hrökklast út aftur vegna þess hversu yfirgengilega ágengt afgreiðslufólkið var. Vá, ég meina það, þegar ég kom þangað síðast stukku 3 afgreiðsludömur á mig, afhentu mér körfu og ýttu mér inn í mátunarklefa þar sem ég var bókstaflega neydd til að máta ca 15 brjóstahaldara. Ég var soldið smeik við að fara þangað aftur......En þegar ég kom þangað að þessu sinni bólaði ekkert á afgreiðsludömunum ágengu. Bara mjög afslappandi tónlist og ekkert stress. Var að skoða mjög flottan brjóstarhaldara þegar miðaldra kona birtist við hliðina á mér og fór að tala við mig. Og áður en ég vissi hafði hún tekið í hönd mér og leitt mig að mátunarklefanum. Ég held að þetta hafi kannski bara verið Viktoria sjálf.....Talaði við mig á leiðinni eins og hún væri amma mín og ég nýútskrifuð af Kleppi, þ.e. hvaðan er þú væna mín, þú verður að máta til að finna réttu sniðin elskan mín og svo framvegis. Ég get eiginlega ekki lýst þessu almennilega, en þetta var mjög fyndið í búðinni og ég sleppti mér alveg......og hló bara eins og ég væri nýsloppinn af Kleppi......En ég keypti þó blessaðan haldarann, það var það minnsta sem ég gat gert eftir allan hláturinn......

Ég fékk email frá nemenda í Skandinavíudeildinni síðustu helgi. Sú er að sitja námskeið um Skandinavískar draugasögur og ætlar að skrifa um þann undarlega ávana íslenskra drauga að endurtaka alltaf orð í vísum sínum(móðir mín í kví, kví og Garún, Garún og svo framvegis). Henni vantar heimildir og var að spyrja hvort að einhver hefði einhverntíma skrifað um þetta atriði. Og nú beini ég spurningunni til ykkar Brækanna, hver hefur eiginlega skrifað eitthvað um þetta þarna heima?

Þessa vikuna talaði ég ekki við neinn heimilislausan. Gekk bara framhjá fullt af þeim. Og gaf nokkrum þeirra 25 cent. Maður getur víst ekki hjálpað öllum og ég hef þá reglu að gefa bara einum 25 cent á dag. Annars færi maður sko hreinlega á hausinn........